is Íslenska en English

Lokaverkefni (Diplóma bakkalár)

Háskóli Íslands > Heilbrigðisvísindasvið > Diplómaritgerðir - Heilbrigðisvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/10693

Titill: 
 • Dreifing hjúpgerða pneumókokka í sýkingum 0-6 ára barna árið 2010
Námsstig: 
 • Diplóma bakkalár
Efnisorð: 
Útdráttur: 
 • Streptococcus pneumoniae, pneumókokkar, eru mikilvægir sýkingavaldar í mönnum um allan heim, þó sérstaklega í börnum undir fimm ára aldri og rosknu fólki. Þeir eru meðal algengustu orsaka miðeyrnabólgu og lungnabólgu sem og ífarandi sýkinga eins og blóðsýkinga og heilahimnubólgu. Eiginleikar fjölsykruhjúpsins gera hann að helsta meinvikniþætti pneumókokka og er mikilvægasta hlutverk hans að verja bakteríuna fyrir varnarkerfi hýsilsins. Hæfni pneumókokka til að valda ífarandi sýkingum er mismikil milli hjúpgerða en tiltölulega fáar hjúpgerðir af þeim 93 sem þekktar eru, eru orsök meiri hluta ífarandi sýkinga.
  Dreifing hjúpgerða pneumókokka er breytileg eftir landsvæðum, aldri og tímabilum en eiginleikar klóna sem eru í umferð hverju sinni gefa þeim forskot sem gæti stuðlað að breytinum á dreifingu hjúpgerða t.d. hæfileikar til að valda ífarandi sýkingum og myndun ónæmis fyrir algengum sýklalyfjum. Hér á landi höfum við á um tveim áratugum séð klón af hjúpgerð 6B sem er fjölónæmur fyrir sýklalyfjum ná fótfestu, dreifast um samfélagið og hverfa síðan nánast alveg og síðan annan klón sem einnig er fjölónæmur af hjúpgerð 19F gera slíkt hið sama, en hann er enn í útbreiðslu. Í apríl á þessu ári hófst bólusetning með bóluefninu Synflorix á Íslandi gegn tíu hjúpgerðum pneumókokka. Bóluefnið stendur öllum börnum sem fæðast frá og með 1. janúar 2011 til boða. Þegar áhrif bólusetninga eru metin þarf fyrst að liggja fyrir dreifing hjúpgerða pneumókokka í sýkingum og hjá heilbrigðum berum áður en þær hefjast og helst um nokkurn tíma þannig að náttúrulegar tímasveiflur sjáist. Með áframhaldandi eftirliti með dreifingu hjúpgerða er þá hægt að meta hvort og þá hvaða hjúpgerðir koma í stað þeirra sem bóluefnið veitir vörn gegn.
  Markmið þessarar forkönnunar er að setja upp multiplex PCR aðferð sem hjúpgreinir marga pneumókokkastofna í senn á sérvirkan og hlutlægan hátt og meta vaxandi (cumulative) hlutfall hjúpgerða pneumókokka sem greinast í multiplex PCR hvörfum. Jafnframt er markmiðið að kanna dreifingu hjúpgerða pneumókokka í sjúklingasýnum frá 0-6 ára börnum frá árinu 2010.
  Í sýnum frá augum, miðeyra og nefkoki ræktuðust 602 stofnar frá 0-6 ára börnum sem voru ræktaðir og greindir með hefðbundnum aðferðum á Sýklafræðideild Landspítalans árið 2010. Þegar var búið að full hjúpgreina 134 stofna með Latex taflborðskekkjunarprófi og kóagglútínasjónprófi og jafnframt var búið að greina hjúpgerðarhóp 87 stofna.
  Fjögur multiplex PCR hvörf voru sett upp í panel til að greina 12 hjúpgerðir pneumókokka í 386 sýnum. Í fyrsta hvarfinu voru prímerar fyrir þrjár algengustu hjúpgerðir pneumókokka sem greindust árið 2005-2007 í rannsókn Mörthu Á. Hjálmarsdóttur og félaga, í öðru hvarfi voru næstu þrjár algengustu og svo koll af kolli.
  Multiplex PCR aðferðin greindi 44% hjúpgerða pneumókokka í fyrsta hvarfi en í heildina greindust 61,9% hjúpgerðir pneumókokka með multiplex PCR aðferðinni. Jafnframt greindist fyrsta tilfelli af hjúpgerð 6D á Íslandi í þessari rannsókn. Algengustu hjúpgerðir pneumókokka sem greindust í sýnum frá 0-6 ára börnum árið 2010 voru 19F (39,1%), 6A (9,8%), 23F (9,0%), 19A (4,0%) og 14 (3,7%). Hjúpgerð 19F var algengust í öllum sýnaflokkum hjá 0-1 árs börnum og hjá 2-6 ára börnum. Hjúpgerð 23F var næst algengust bæði í sýnum frá augum og miðeyra en hjúpgerð 6A í sýnum frá nefkoki. Jafnframt var hjúpgerð 23F næst algengust hjá yngri börnunum en hjúpgerð 6A hjá eldri börnunum.
  Rannsóknin sýndi að multiplex PCR aðferðin virkar vel og er hentug til að greina stór stofnastöfn. Jafnframt sýndi rannsóknin að aðferðin getur greint allt að 2/3 pneumókokkastofna í fyrsta multiplex PCR hvarfinu.

Samþykkt: 
 • 23.1.2012
URI: 
 • http://hdl.handle.net/1946/10693


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
dreifing hjupgerda pneumokokka i sykingum 0-6 ara barna arid 2010_sjq.pdf1.18 MBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna