is Íslenska en English

Lokaverkefni (Bakkalár)

Háskólinn á Akureyri > Heilbrigðisvísindasvið > B.S. verkefni >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/1072

Titill: 
 • Kransæðastífla - hvað svo? : Upplifun karlmanna af því að greinast með kransæðastíflu á besta aldri: Fyrirbærafræðileg rannsókn
Námsstig: 
 • Bakkalár
Útdráttur: 
 • Tilgangur rannsóknarinnar var að kanna upplifun karlmanna af því að greinast með kransæðastíflu á besta aldri og hvaða áhrif það hefur á líf þeirra og líðan. Markmið rannsóknarinnar var að frásögn karlmannanna af reynslu sinni gæti gagnast þeim, fjölskyldum þeirra og öðrum sem greinast með kransæðastíflu síðar meir svo og heilbrigðisstarfsfólki. Einnig gæti rannsóknin leitt til betri skilnings heilbrigðisstarfsfólks á aðstæðum kransæðasjúklinga. Þannig er ef til vill hægt að stuðla að betri þjónustu og bættum samskiptum.
  Bakgrunnur: Kransæðasjúkdómar hafa verið ein algengasta dánarorsök Íslendinga undanfarna áratugi. Meðferð við kransæðasjúkdómum hefur þróast mikið á undanförnum árum, lífslíkur kransæðasjúklinga hafa aukist og lífsgæði þeirra batnað.
  Rannsóknarspurningin: Hver er upplifun karlmanna af því að greinast með kransæðastíflu á besta aldri.
  Rannsóknaraðferð: Rannsóknin var byggð á eigindlegri aðferð og var unnin samkvæmt Vancouver-skólanum í fyrirbærafræði. Fyrirbærafræðilegar rannsóknir skoða hvaða skilning einstaklingurinn hefur á veruleika sínum og hvernig hann skynjar líf sitt. Þátttakendur voru átta karlmenn á aldrinum 35 til 50 ára sem greinst höfðu með kransæðastíflu fyrir sex til tólf mánuðum. Meðalaldur þátttakenda var 42,5 ár. Rannsakendur tóku eitt viðtal við hvern þátttakanda sem tók 30 til 60 mínútur.
  Stuðst var við hálfstaðlaðan spurningarlista og voru viðtölin síðan rituð orðrétt upp. Karlmennirnir lýstu í viðtölunum hvaða áhrif sjúkdómurinn hafði á líf þeirra og líðan. Einnig hvaða aðferðir þeir notuðu til að fást við þau vandamál sem upp komu í veikindunum.
  Niðurstöður: Gögnin voru greind niður í fimm meginþemu og nokkur undirþemu og sett fram í greiningarlíkani. Meginþemun eru: Andleg líðan, líkamleg líðan, lífstílsbreytingar, að takast á við daglegt líf og upplifun af heilbrigðisþjónustu.
  Niðurstöðurnar sýndu að karlmennirnir áttu það sameiginlegt að greiningin kom þeim á óvart. Það kom fram að veikindin höfðu í fyrstu neikvæð áhrif á andlega og líkamlega líðan en þegar frá leið var það samdóma álit karlmannanna að líkamleg líðan væri betri en fyrir veikindin. Flestir breyttu lífstíl sínum til betri vegar og settu heilsu sína í forgang. Þeir sem höfðu stuðning maka tóku mun betur á lífstílsbreytingunum en þeir sem voru einstæðir gerðu litlar eða engar breytingar. Niðurstöðurnar sýndu að fræðslan komst oft á tíðum ekki til skila meðan á sjúkrahúsdvöl stóð en markviss fræðsla og eftirfylgni veita aðhald, stuðning og öryggi og spila stórt hlutverk í bataferli kransæðasjúklinga.
  Ályktun: Rannsakendur draga þá ályktun að huga þurfi betur að andlegri líðan kransæðasjúklinga þar sem margir upplifa kvíða og hræðslu í kjölfar veikindanna.
  Rannsakendur telja að þeir kransæðasjúklingar sem eiga ekki maka þurfi meiri stuðning og eftirfylgni frá fagaðilum.
  Lykilhugtök: Kransæðastífla, upplifun, líðan, lífstílsbreytingar og samskipti.

Samþykkt: 
 • 1.1.2007
URI: 
 • http://hdl.handle.net/1946/1072


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
Ritgerd A4.pdf4.9 MBOpinnLokaritgerðPDFSkoða/Opna