Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/10742
Bólivía er landlukt ríki staðsett í Suður Ameríku. Landið sem er að mestu byggt Aymara og Quechua frumbyggjum hefur einkum getið sér orð á alþjóðavettvangi fyrir að vera fátækasta land Suður Ameríku og einnig það vanþróaðasta. Hvað sem því líður þá er Bólivía áhugavert land sem á sér langa sögu og býr yfir ríkri fjölmenningarlegri arfleið. Þrátt fyrir að Bólivía hafi hingað til verið lítt áberandi gagnvart umheiminum, þá virðist sem sú þróun hafi breyst á undanförnum árum með tilkomu Evo Morales, núverandi forseta landsins. Morales er fyrstur manna af Aymara frumbyggjum til að vera kosinn forseti en hann hlaut kosningu árið 2005 og var endurkjörinn árið 2009. Frá því Morales komst til valda hefur hann verið duglegur við að kynna land og þjóð á alþjóðavettvangi og hefur hafið til vegs og virðingar sérstæðu landsins og þau samfélög frumbyggja sem þar er að finna.
Grimmilegir atburðir tengdir stjórnmálasögu landsins hafa sett sitt mark á þjóðina, en bólivískir rithöfundar hafa margir hverjir nýtt sér þessa atburði sem innblástur í skáldskap sínum og þannig tekið þátt í mótun þjóðvitundar íbúanna. Samtímabókmenntir landsins sýna þessa þróun og liggja jafnan til grundvallar í þeirri viðleitni að auka skilning á menningu og sögu landsins ásamt fólkinu sem það byggir.
Markmið þessarar rannsóknar er að greina þrjú skáldverk eftir bólivískar konur og setja þau í samfélagslegt samhengi. Eftir kynningu á sögu landsins og menningararfleið verður sjónum beint að rithöfundunum Paz Juana Plácida Adela Rafaela Zamudio Ribero, Domitila Barrios de Chungara og Blanca Elena Paz Peña. Allar tilheyra þær ólíkum kynslóðum og mismunandi stéttum en eiga það sameiginlegt að vitna í verkum sínum, um óréttlæti sem jaðar- og minnihlutahópar í Bólivíu hafa mátt þola í gegnum tíðina. Þær fjalla sérstaklega um konur, frumbyggja og aðra þá sem ekki hafa átt upp á pallborðið hjá ráðandi öflum landsins, þ.e. um fólk sem hefur ekki látið undan ógnarvaldi stjórnvalda. Að lokum verður fjallað sérstaklega um núverandi forseta landsins, í því skyni að komast að niðurstöðu um hvort hann sé mögulega svarið við frekari uppbyggingu og þróun landsins.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
Jóhanna, BA ritgerð.pdf | 476.37 kB | Lokaður til...07.07.2057 | Heildartexti |