is Íslenska en English

Skýrsla

Háskóli Íslands > Félagsvísindasvið > Ritraðir og skýrslur >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/10779

Titill: 
 • Viðhorf eldra fólks: Rannsókn á viðhorfi og vilja aldraðra sem búa í heimahúsum
Útgáfa: 
 • Desember 2006
Útdráttur: 
 • Markmið þessarar rannsóknar var að afla upplýsinga um viðhorf og aðstæður aldraðra sem búa í heimahúsum. Tilgangurinn var að leita svara við því hvaða þættir stuðla að vellíðan og öryggi aldraðra og hvað þarf að vera til staðar til að aldrað fólk geti búið sem lengst á heimilum sínum. Rannsóknin byggir á rýnihópum þar sem rætt við 46 aldraða og þeir spurðir m.a. um búsetuhagi, þjónustu, starfslok, félagslega og fjárhagslega stöðu, svo og hvernig þeir upplifa viðhorf til sín í samfélaginu. Einnig var hvatt til umræðna um hver væru brýnustu verkefnin til að bæta hag aldraðra.
  Í umræðuhópunum var mikið rætt um mikilvægi þess að búa á heimilum sínum sem lengst og til þess að svo geti orðið þarf fólk að geta treyst því að það fái viðeigandi þjónustu þegar það þarf á henni að halda. Víða kom fram að það væri nauðsynlegt að til staðar væri öryggisnet sem tæki við ef heilsan færi að gefa sig og fólk þarfnaðist aðstoðar. Bæði var rætt um að tryggja þyrfti að aldraðir fái þjónustu í heimahúsum og einnig að þeim verði tryggð hjúkrunarheimilisvist ef þess gerist þörf. Margir höfðu áhyggjur af því að ekki væru til hjúkrunarheimili fyrir alla þá sem á þeirri þjónustu þyrftu að halda og kviðu þeim tíma þegar og ef röðin kæmi að þeim að sækja um. Var það bæði vegna þess að erfitt er að fá inni á heimilum fyrir aldraða og einnig að það skerti frelsi einstaklinga að þurfa að fara á hjúkrunarheimili. Bent var á að mikið öryggi væri í því fólgið að fylgst væri með eldra fólki í heimahúsum, t.d. með skipulögðum heimsóknum.
  Umræða var um að heimaþjónustan væri ekki nógu trygg og að starfsmannaskipti þar gerðu það að verkum að þjónustan nýttist ekki sem skyldi. Til að geta búið heima þarf þessi þjónusta að vera stöðug og áreiðanleg og gerðar eru kröfur um að starfsfólkið kunni til verka. Fólki þótti bagalegt að fá starfsmenn sem ekki töluðu íslensku við notendur þjónustunnar.
  Sérhannaðar íbúðir fyrir aldraða þóttu vera góður kostur fyrir aldraða en þær þóttu of dýrar og væru því einungis fyrir vel efnað fólk. Viðmælendur voru sammála um að öryggið væri meira í slíkum íbúðum en í almennu íbúðarhúsnæði þó svo að margir efuðust um að þjónustan væri betri í þeim. Fram kom að fólk taldi sig hafa meiri félagsskap ef það byggi í húsum sem væru eingöngu ætluð eldra fólki. Aðild að Samtökum eldri borgara var talin bjóða upp á ákveðna vernd og veitti forgang við kaup á íbúðum sem byggðar eru á vegum þeirra.
  Ósanngjarnt þótti að láta fólk hætta launaðri vinnu við ákveðinn aldur og hvatt til þess að aldraðir gætu valið sveigjanleg starfslok ef þeir hefðu heilsu til. Þótti rétt að gefa öldruðum kost á léttari verkefnum. Fram kom tillaga um að hvetja stórfyrirtæki til að hafa jafna skiptingu milli ungra, miðaldra og fullorðinna starfsmanna en ekki bara milli kynja og nýta þannig reynslu og visku eldri starfsmanna sinna frekar en að láta þá hætta. Fékk tillagan hljómgrunn í hópnum. Tekjutenging ellilífeyris og háir skattar höfðu áhrif á að fólk ákvað að hætta launaðri vinnu. Þegar fólk bar ekkert meira úr býtum fyrir vinnuna fannst því ekki taka því að vera í vinnu. Við starfslok er mikilvægt að hafa að einhverju öðru að hverfa. Það að hafa áhugamál til að sinna eða hlutverki að gegna eftir starfslok hjálpaði fólki við þær breytingar sem starfslokin höfðu í för með sér.
  Viðhorf til aldraðra var talið heldur neikvætt og fordómar gegn eldra fólki miklir. Framkoma við aldraða væri oft óásættanleg og ekki tekið tillit til þarfa þeirra og óska. Benda þyrfti yngra fólki á að bera meiri virðingu fyrir eldra fólki og hvatt til þess að stuðlað yrði að því að fólk á ólíkum aldri gæti stundað vinnu á sama stað. Gagnkvæm virðing og meiri samskipti gætu minnkað kynslóðabilið. Fólk áttar sig ekki á fordómum gegn öldruðum fyrr en það verður sjálft gamalt. Ákveðin lítillækkun þótti einnig fólgin í því að aldraðir þyrftu að fá afslátt og strætisvagnamiða í öðrum lit en aðrir. Betra væri að þeir hefðu nægilegar ráðstöfunartekjur og gætu greitt fyrir sig fullt verð eins og aðrir.
  Öldruðum fjölgar í samfélaginu og var hvatt til þess að þeir létu meira að sér kveða á opinberum vettvangi og hefðu áhrif á þá þjónustu sem þeim er veitt. Það að hafa hlutverk og ákveðin viðfangsefni eftir að launaðri vinnu er hætt er mikilvægt og auðveldaði fólki starfslokin. Það hlutverk að sinna barnabörnum og „flytja vísdóm milli kynslóða” veitti fólki lífsfyllingu. Nauðsynlegt er að hafa eitthvað við að vera og mikilvægt að bera sig sjálfur eftir félagsskap.
  Í hnotskurn kom skýrast fram í rannsókninni mikilvægi þess að tryggja fólki örugga þjónustu þegar á þarf að halda, hvort sem um er að ræða heimaþjónustu eða vistun á hjúkrunarheimili. Þetta er forsenda þess að fólk geti búið heima sem lengst. Einnig var áhersla lögð á að bæta fjárhagslega stöðu aldraðra til að gera þeim kleift að lifa sjálfstæðu lífi. Önnur ríkjandi sjónarmið voru þau að mikilvægt væri fyrir eldra fólk að hafa hlutverki að gegna í samfélaginu eftir að launuðu starfi lýkur.

ISBN: 
 • 9979-70-231-1
Athugasemdir: 
 • Ritröð um rannsóknaverkefni á sviði félagsráðgjafar 2006(1).
Tengd vefslóð: 
Samþykkt: 
 • 2.2.2012
URI: 
 • http://hdl.handle.net/1946/10779


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
Ritr_d1-Vidhorf eldra f_lks.pdf251.26 kBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna