Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/10864
Í verkefni þessu er fjallað um upplifun íbúanna í nýju úthverfunum við Úlfarsfell og Urriðaholt. Þetta fólk stóð í byggingarframkvæmdum er efnahagshrunið varð hérlendis árið 2008 og má ætla að væntingar þeirra, aðstæður og hugmyndir hafi eitthvað breyst í kjölfar breyttra efnahagslegra aðstæðna í þjóðfélaginu síðan hverfin voru skipulögð og þeir fjárfestu í eignum sínum. Megin áhersla þessa verkefnis er því á nýju úthverfin við Úlfarsfell og Urriðaholt, þá íbúa sem fluttir eru í þessi hverfi og á hvaða hátt þeir upplifa hverfin sín. Upplifun íbúanna var könnuð með spurningalista, sem handahófskennt úrtak hverfanna var fengið til að svara, og upplifun þeirra svo túlkuð úr svörunum. Auk spurninga um almenn grunn atriði þá byggist spurningalistinn á gildandi deiliskipulögum og fyrirliggjandi rammaskipulögum úthverfanna og áætlaðri uppbyggingu þeirra. Hverfunum eru því gerð nokkuð ítarleg skil út frá deiliskipulögum þeirra og gildandi aðalskipulögum Reykjavíkur og Garðabæjar. Fyrst er þó þróun Reykjavíkurborgar skoðuð og hvernig skipulagi hjá borginni hefur verið háttað í gegn um tíðina. Sagan er rakin og sérstök áhersla er lögð á úthverfamyndun til að fá betri skilning á dreifðri útbreiðslu borgarinnar. Niðurstöður úr könnuninni sýna að það er helst fjölskyldufólk sem sækir í hverfin við Úlfarsfell og Urriðaholt. Það eru einna helst náttúrufarslegir þættir sem laða fólk að þessum hverfum og þeir útivistamöguleikar sem þau búa yfir í jaðri byggðarinnar. Meirihluti íbúa sem rætt var við telur einmitt þessa náttúrufarslegu þætti til helstu kosta hverfanna í dag. Einnig skipti lóðaúthlutun miklu máli í mörgum tilvikum og leiddi til þess að fólk settist að í einmitt þessum tilteknu hverfum. Mikið er af börnum í hverfunum enda þau skipulögð með mikla möguleika til tómstunda og leikja. Með breyttum forsendum í kjölfar efnahagshrunsins árið 2008 hefur uppbyggingu hverfanna seinkað. Það sem íbúar finna helst að hverfunum er að í kjölfarið koma þeir til með að búa enn lengur í byggingahverfi en ella. Að undanskildu skólastarfi í Úlfarsfelli er engin áætluð þjónusta komin í hverfin og þau ófrágengin með tilheyrandi óhreinindum. Þrátt fyrir þetta virðast flestir nokkuð bjartsýnir á framtíðina og finnast, enn sem komið er, að kostirnir vegi þyngra en gallarnir. Samkvæmt þessari könnun er ekki algengt að fólk íhugi brottflutning úr hverfunum en fæstir myndu þó taka þessa ákvörðun í dag að flytjast í þessi hverfi.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
Hulda DagmarLokaritgerð.pdf | 3.75 MB | Opinn | Skoða/Opna |