Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/10982
Í þessari ritgerð verður fjallað um pólitískt landslag Nígeríu en dramatísk umskipti hafa orðið á því landslagi frá því landið varð sjálfstætt árið 1960. Nígería hefur á síðastliðnu 51 ári átt erfitt uppdráttar, bæði á pólitískum vettvangi og í efnahags- og samfélagsmálum. Tilraunir hafa verið gerðar af hálfu stjórnvalda til að beina Nígeríu á farsæla braut en togstreitan á milli þjóðernis- og trúarbragðahópa, spilling, efnahagslegir og pólitískir þættir hafa staðið í vegi fyrir þróun í uppbyggingu landsins. Í Nígeríu hefur átt sér stað mikil skipting á milli hópa, það er að segja hópa af mismunandi þjóðerni og trúarbrögðum. Sem dæmi hefur valdabarátta, auðlindadreifing og úrræði fyrir minnihlutahópa oft verið kveikjan að grimmdarlegum átökum. Í ritgerð minni verður leitast við að svara eftirfarandi spurningum: Á landið Nígería farsælda framtíð fyrir sér eða verða þar áframhaldandi átök? Til að svara því verður fjallað um þá þætti sem einkum hafa torveldað velgengni í Nígeríu.
Í upphafi ritgerðarinnar verður fjallað um þær pólitísku breytingar sem orðið hafa á stjórnmálum í Nígeríu á síðastliðnum 50 árum. Þá verða þeir þættir teknir fyrir sem hafa torveldað velmegun og velgengni í Nígeríu. Það eru einkum þjóðernishópar og valdabarátta milli þeirra, sem hafa haft hamlandi áhrif á velgengni í landinu. Aðrir þættir, eins og meiri- og minnihlutahópar í Nígeríu, spilling, trúarbrögð og átök kristinna manna og þeirra sem aðhyllast íslamstrú, hafa líka haft þar áhrif og verður fjallað um þessa þætti í ritgerðinni. Upphaf Nígeríu–Bíafrastríðsins verður til umfjöllunar og sagt frá því hvaða áhrif og afleiðingar stríðið hafði fyrir Nígeríu. Í kaflanum um ríki verður fjallað um ríki og Nígeríu. Spilling, auðlindir og efnahagur í Nígeríu verður til einnig til umfjöllunar.
Ég kemst að þeirri niðurstöðu í rannókn minni að spilling hafi komið í veg fyrir velsæld og velmegun hjá almenningi í Nígeríu og geri enn þann daginn í dag. Famtíð landsins er þó bjartari en áður. Í Nígeríu hefur valddreifing aukist og miklar vonir eru bundnar við það að árið 2020 verði landið tuttugasta stærsta hagkerfi heims. Erfitt er að meta hvort þeim markmiðum verði náð fyrir 2020, en með styrkingu grunngerðar ríkisins, eru Nígeríu allir vegir færir.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
BA ritgerð Lokaskjal Sóley Ósk.pdf | 856.18 kB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna |