Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/10983
Ritgerð þessi fjallar um hvers vegna Framsóknarflokknum hefur gengið illa að afla sér fylgis í þéttbýlustu kjördæmunum þremur og er sjónum hennar sérstaklega beint að tímabilinu 1999-2007. Í ritgerðinni er farið yfir sögu flokksins með áherslu á þau tímabil sem mikilvæg kunna að vera umfjöllunarefninu. Þá er fylgisþróun flokksins skoðuð og rýnt betur í kosningaúrslit hans. Fjallað er um hugmyndafræði flokksins svo betur megi átta sig á fyrir hvað hann stendur og hvaða grundvallarstefnu hann hefur sett sér. Þá er sagt frá álitum fræðimanna og annarra málsmetandi einstaklinga um í hverju vandamál flokksins er fólgið. Teknir eru saman samnefnarar þeirrar orðræðu og að því loknu gerð tilraun til að sannreyna það sem í þeim felst.
Niðurstöður ritgerðarinnar eru þær að ástæðum þess að Framsóknarflokknum gengur illa að afla sér fylgis í þéttbýli megi skipta í þrennt. Í fyrsta lagi fór flokkurinn út fyrir eigin hugmyndafræði í tilraunum sínum til að auka fylgi sitt í stóru kjördæmunum þremur og færðist til hægri á hinum pólitíska væng. Sú færsla hefur haft fráhrindandi áhrif á þá sem hingað til hafa kosið hann vegna hinnar sannkallaðrar Framsóknarstefnu félags- og umbótahyggju. Í öðru lagi virðist hann hafa færst svo langt til hægri að nefnt hefur verið að vart sé sjáanlegur munur á stefnu hans og stærsta stjórnmálaflokki landsins, Sjálfstæðisflokknum. Ljóst er að slík hugmyndafræðileg tilfærsla verður erfið hvaða stjórnmálaflokki sem er. Í þriðja lagi er slík tilfærsla Framsóknarflokknum sérstaklega erfið í kjördæmum höfuðborgarsvæðisins ef eini sjáanlegi munur hans og Sjálfstæðisflokksins er stefna hans um jafnvægi í byggð, byggðamál og gegn byggðaröskun.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
BA_ritgerð-Leó_Ingi_Leósson-Lokaútgáfa.pdf | 619,41 kB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna |