Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/11014
Í ritgerð þessari verður leitast við að varpa ljósi á áhrif ályktana Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna á íslenska löggjöf. Samkvæmt Sáttmála Sameinuðu þjóðanna eru ályktanir Öryggisráðsins þjóðréttarlega skuldbindandi og ber aðildarríkjum að koma þeim til framkvæmda eins fljótt og auðið er. Með tilliti til tvíeðliskenningarinnar þarf að innleiða ályktanirnar í íslenskan rétt, svo að þær öðlast gildi að landsrétti. Er það yfirleitt gert með stjórnvaldsfyrirmælum, sbr. 2. og 4. gr. laga nr. 93/2008 um framkvæmd alþjóðlegra þvingunaraðgerða.
Samfara aukinni virkni Öryggisráðsins á síðustu árum beitir ráðið nú valdheimildum sínum með áður óþekktum hætti og hefur m.a. gengið svo langt í ályktunum sínum að mæla fyrir um setningu almennra reglna. Íslensk stjórnvöld hafa m.a. þurft að bregðast við slíkum ályktunum með sérstakri lagasetningu. Er því tilefni til að taka til athugunar hvaða áhrif ályktanir Öryggisráðsins hafa á íslenska löggjöf, með tilliti til mögulegs framsals löggjafarvalds.
Fyrsti hluti ritgerðarinnar fjallar um aðild Íslands að Sameinuðu þjóðunum. Annar hlutinn er tileinkaður Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna, hlutverki þess og valdheimildum. Þriðji hlutinn er helgaður umfjöllun um heimildir á framsali ríkisvalds til alþjóðlegra stofnana í íslenskum rétti þar sem athugað verður hvort ályktanir Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna feli í sér framsal löggjafarvalds. Í því sambandi eru ályktanir Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna bornar saman við ákvarðanir Sameiginlegu EES-nefndarinnar. Loks eru helstu ályktanir dregnar saman í lokaorð.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
KristelFinnbogad_lokaeintak.pdf | 298,91 kB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna |