Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/11027
Í þessari ritgerð verður leitast við að svara því hvað felst í hugtakinu almenningsþörf sem fram kemur í 72. gr. stjórnarskrárinnar. Í aðdraganda þess verða hugtökin eign og eignarréttindi skýrð, almennt og í merkingu 72. gr. stjórnarskrárinnar með hliðsjón af kenningum fræðimanna og dómaframkvæmd. Þá verður skoðuð sú eignarréttarvernd sem 1. gr. 1. samningsviðauka við Mannréttindasáttmála Evrópu veitir og hún borin saman við eignarréttindavernd stjórnarskrárinnar. Vikið verður síðan lauslega að skilyrðum 72. gr. um lagaheimild og fullar bætur.
Umfjöllunin verður með þeim hætti að hugtakið almenningsþörf er skýrt og tvíþætt inntak þess. Þá verður skoðuð dómaframkvæmd þar sem reynt hefur á skilyrðið. Þar sem ákvæði 72. gr. stjórnarskrárinnar er upprunnið úr dönskum rétti verður vikið að skilyrði 73. gr. dönsku grundvallarlaganna um almenningsþörf og túlkun danskra fræðimanna á því. Þá verður sérstaklega vikið að því hvernig skilyrðið um meðalhóf spilar inn í matið á almenningsþörf. Skoðuð verður dómaframkvæmd með það að leiðarljósi að kanna hvort að dómstólar endurskoði mat löggjafans á almenningsþörf og sú þróun sem hefur orðið á síðari árum í þeim efnum. Einnig verður skoðuð endurskoðun dómstóla á mati stjórnvalda um nauðsyn eignarnáms og hvernig leyst er úr því ef skilyrðið um almenningsþörf er ekki uppfyllt.
Loks verður vikið að því álitamáli hvort að eignarnám feli í öllum kringumstæðum í sér endanlega eignayfirfærslu. Þannig verður reynt að varpa ljósi á það hvort svokallaður endurheimturéttur sé til staðar í íslenskum rétti með hliðsjón af skilyrðinu um almenningsþörf. Endurheimturéttur felur í sér að eignarnámsþoli geti fengið eign sína til baka ef hún er ekki nýtt í samræmi við tilgang eignarnámsins. Réttarstaða eignarnámsþola á þessu sviði hefur verið óljós en ekki er að finna ákvæði um endurheimturétt í íslenskum lögum né stjórnarskrá. Vegna skorts á ákvæðum verður dómaframkvæmd því skoðuð og reynt að varpa ljósi á réttarstöðuna í íslenskum og norrænum rétti.
Þar sem umfjöllun íslenskra fræðimanna um almenningsþörf er af skornum skammti verður umfjöllunin að miklu leyti byggð á dómaframkvæmd og ályktanir dregnar af henni.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
Steinunn Guðmundsdóttir - læst.pdf | 305.94 kB | Lokaður til...20.04.2039 | Heildartexti |