Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/11147
Verkefnið er rannsókn á núverandi stöðu og möguleikum starfsþróunar akademískra starfsmanna við Listaháskóla Íslands ásamt tillögum að breytingum. Tillögurnar eru m.a. byggðar á samanburði við Háskóla Íslands.
Í verkefninu er farið fræðilega yfir hugtakið starfsþróun og önnur hugtök tengd því. Þar er fjallað um þróun mannauðs, stefnu, ferli og aðferðir þróunar og starfsþróunar, þjálfun, nám, tegundir náms og færni og gerð grein fyrir hugtökunum starfsánægju, hvatningu og starfsmannaráðningar, en þau eru öll mikilvæg í umræðunni um starfsþróun. Gerð er grein fyrir skipulagsheildinni Listaháskóla Íslands, stjórnsýslu og skipuriti og fjallað stuttlega um stefnu hennar. Þá er fjallað um þau fyrirliggjandi gögn sem teljast rannsókninni gagnleg, auk þess sem stuttlega er greint frá starfsþróun akademískra starfsmanna við Háskóla Íslands. Við rannsóknina var beitt eigindlegri aðferðafræði og var gagnaöflun í formi viðtala og fyrirliggjandi gagna. Tekin voru opin viðtöl um stöðu og möguleika starfsþróunar við Listaháskóla Íslands við tvo lykilstarfsmenn skólans, auk starfsmanns við Háskóla Íslands. Rýnihópar voru mótaðir með akademískum starfsmönnum Listaháskólans þar sem rætt var um stöðu og möguleika starfsþróunar við skólann og viðmælendur sögðu frá sinni reynslu.
Megin niðurstaðan er sú að staða og möguleikar starfsþróunar akademískra starfsmanna við Listaháskólann er ábótavant og ýmislegt innan Háskóla Íslands mætti Listaháskólinn taka sér til fyrirmyndar. Stærsta áhyggjuefni rannsakanda er sú staðreynd að skólanum hefur ekki enn tekist að fá samning við ríkið um fjárframlög til rannsókna líkt og aðrir háskólar í landinu og hamlar það að miklu leyti starf hans. Einnig það að enginn mannauðsstjóri er starfandi við skólann.
Í samantekt eru tillögur um hvaða leiðir mætti fara til að bæta stöðu þessa þáttar starfsmannamála innan skólans, þar sem stuðst er við umræður rýnihópa, fræðilega hlutann og samanburð við Háskóla Íslands.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
Lokaverkefni.pdf | 789,19 kB | Lokaður til...30.04.2027 | Heildartexti |