Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/11155
Mikil pólitísk spenna hefur myndast milli Kína og Bandaríkjanna vegna gengismála Kína. Bandaríkin kenna Kína um skaðlega efnahagsstefnu en Kína neitar öllum ásökunum. Frá lokum seinni heimstyrjaldar hefur kínverskt efnahagslíf verið undir járnhæl miðstýringar, þó hefur þróun á síðustu árum aukið efnahagslegt frelsi íbúanna sem hefur í för með sér aukna framleiðni.
Lággengisstefnan veldur því að Kína verður að hafa ströng gjaldeyrishöft ef sjálfstæð peningamálastefna á að vera möguleg. Gjaldeyrishöftin hafa ýmsan kostnað í för með sér. Kínverjar geta ekki veitt sparnaði sínum til hagkvæmra framkvæmda á erlendri grundu og fjármagnsstreymi inn til Kína er einnig heft. Kínverska ríkið reynir þó að hvetja til beinnar erlendrar fjárfestingar sem stuðlar að hagvexti. Gjaldeyrishöftin einangra einnig hagkerfið svo að alþjóðlegar kreppur hafa minni áhrif á efnahag Kína.
Áhrif gengisstefnunnar í Kína eru margvísleg, ákveðnir aðilar eru betur settir á kostnað annarra. Útflutningsaðilar hagnast á genginu vegna aukinnar samkeppnishæfni á erlendum markaði. Framleiðendur sem stóla á innflutning aðfanga eru hinsvegar verr settir þar sem framleiðslukostnaður þeirra eykst. Neytendur eru einnig verr settir því erlendar vörur eru dýrari.
Áhrif stefnunnar á Bandaríkin eru önnur. Útflutningsaðilar verða fyrir skaða vegna minni samkeppnishæfni gangvart kínverskum vörum. Þeir framleiðendur sem flytja inn aðföng frá Kína eru betur settir vegna minni framleiðslukostnaðar. Þetta kemur neytendum til góða þar sem kínverskar vörur eru ódýrari og neysla þeirra eykst.
Bandaríkin standa frammi fyrir miklum viðskiptahalla en Kína miklum afgangi af alþjóðlegum viðskiptum. Í sjálfu sér er ekkert varhugavert við viðskiptahalla en nauðsynlegt er að hann sé nýttur í hagkvæm verkefni svo mögulegt sé að borga hann upp í framtíð.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
Lokaútgáfa BS ritgerð Þorsteinn.pdf | 953.96 kB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna |