is Íslenska en English

Lokaverkefni (Diplóma bakkalár)

Háskóli Íslands > Heilbrigðisvísindasvið > Diplómaritgerðir - Heilbrigðisvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/11201

Titill: 
  • Yfirtjáning Oct4 og POU5F1P1 í frumum af blöðruhálskirtilsuppruna
Námsstig: 
  • Diplóma bakkalár
Útdráttur: 
  • Krabbamein í blöðruhálskirtli er sjúkdómur sem hrjáir marga karlmenn en það er algengasta krabbameinið sem greint var á Íslandi á árunum 2005-2009. Blöðruhálskirtilskrabbamein greinist seint en meðalaldur við greiningu á Íslandi er 71 ár. Þessi hái aldur við greiningu veldur því að sumir einstaklingar kjósa þiggja ekki meðferð. Sterkustu áhættuþættirnir fyrir blöðruhálskirtilskrabbameini eru aldur, kynþáttur, fjölskyldusaga og erfðir en margir einkirnisbreytileikar hafa fundist sem tengjast auknum líkum á að fá meinið.
    Markmið þessa verkefnis var að yfirtjá tvö gen með veiruferju í frumulínunni PZHPV7 sem er af blöðruhálskirtilsuppruna til að sjá hvort yfirtjáningin myndi hafa áhrif á svipgerð frumnanna eða lífeðlisfræðilega eiginleika. Genin sem voru valin eru Oct4 og POU5F1P1, það fyrrnefnda er umritunarþáttur sem stjórnar tjáningu gena í frumum á stofnfrumustigi og hefur verið tjáður í kjarna krabbameinsfrumna. Hið síðarnefnda er gervigen af Oct4 sem er að jafnaði ekki tjáð en rannsóknir hafa sýnt fram á að það er einnig tjáð í kjarna krabbameinsfrumna úr ýmsum líffærum. Ástæðan fyrir vali þessara próteina eru tengsl þeirra við krabbamein. Ástæðan fyrir vali blöðruhálskirtilskrabbameins er sú að POU5F1P1 er staðsett á svæði í erfðamenginu þar sem margir erfðabreytileikar tengdir krabbameini, bæði í blöðruhálskirtli og annars staðar, liggja. Margar rannsóknir tengdar Oct4 hafa verið gerðar. Samspil meginumritunarþáttanna sem viðhalda fjölhæfu ástandi í fósturfrumum, Oct4, Sox2 og Nanog, hefur verið skoðað í grunninn, Oct4 er tengt krabbameinsmyndandi frumum sem viðhalda krabbameinsæxlum og það er einn af Yamanaka þáttunum sem voru notaðir til að búa til fyrstu framkölluðu stofnfrumurnar (e. induced pluripotent stem cells, iPSC). POU5F1P1 hefur minna verið rannsakað en tengsl þess við Oct4 sem gervigen þess, tjáning þess í krabbameinum og staðsetning gervigensins í nálægð við erfðafjölbreytileikana sem tengdir hafa verið við krabbamein gera það að mjög áhugaverðu rannsóknarefni.
    Í þessari ritgerð verða kynntar fyrstu niðurstöður úr þessu verkefni en til stendur að halda vinnunni við það áfram. Frumur voru ræktaðar upp eftir smitun og litaðar með mótefnum. GFP ljómun var skoðuð en grænljómandi frumur eru til marks um að smitið hafi tekist. Mótefnalitunin bendir til þess að yfirtjáningin hafi tekist þó enn eigi eftir að staðfesta það. GFP ljómandi þyrpingar má finna í öllum frumulínum, þó almenn ljómun sé minnst í POU5F1P1 línunni. Frumur voru ræktaðar upp í matrigeli og fyrstu niðurstöður um vaxtarhæfni þeirra og svipgerð benda til þess genin hafi einhver áhrif. Það virðist ljóst að veirusmitið sjálft hefur áhrif á frumurnar en vera má að þau áhrif minnki með tímanum. Ræktunartíma frumnanna í matrigeli er þó ekki lokið og þessar niðurstöður eru eingöngu vísbendingar um hegðun frumnanna.

Samþykkt: 
  • 30.4.2012
URI: 
  • http://hdl.handle.net/1946/11201


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
HildurSigurgrímsdóttir.pdf1.38 MBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna