Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/11220
Í þessari ritgerð er rannsakað hvað útlendingar vita um íslensk stjórnmál og hvort þeir tengi þá vitneskju neikvæðum eða jákvæðum gildum. Jafnframt er rannsakað hvort og þá hvað útlendingar vilja vita meira um íslensk stjórnmál. Markmiðið er að komast að því hver ímynd íslenskra stjórnmála er í augum útlendinga og hvort og þá hvernig íslenskum stjórnvöldum gagnist félagsmiðlar (e. social media) til upplýsingamiðlunar erlendis til að bæta ímynd íslenskra stjórnmála. Fáar sambærilegar rannsóknir hafa verið gerðar, en mikil umfjöllun um Ísland í erlendum fjölmiðlum frá efnahagshruninu 2008 er að mati rannsakanda mikilvæg ástæða til að kanna framangreinda þætti og grunnur að frekari rannsóknum. Góð ímynd þjóðar skiptir miklu máli, enda umtalsverðir hagsmunir í húfi, sem meðal annars varða aðgengi að alþjóðamörkuðum, ferðaþjónustu, erlendum fjárfestingum og pólitískum tengslum. Spurningalisti var lagður fyrir hentugleikaúrtak erlendra ferðamanna, sem staddir voru á Íslandi í apríl 2012, og á svipuðum tíma fyrir hentugleikaúrtak útlendinga á félagsmiðlunum Facebook og Google plús. Meginniðurstöður rannsóknarinnar eru að útlendingar vita frekar lítið um íslensk stjórnmál, en tengja vitneskjuna fremur jákvæðum gildum. Flestir sjá eða heyra fréttir um íslensk stjórnmál að minnsta kosti einu sinni á ári, en langar að fá slíkar fréttir oftar. Þessi niðurstaða gæti bent til að íslensk stjórnvöld þyrftu að skoða nýjar leiðir til að koma upplýsingum um íslensk stjórnmál til útlendinga. Einn möguleikinn er að nota félagsmiðla, eins og stjórnvöld margra annarra ríkja gera, til þess að miðla upplýsingum hratt og milliliðalaust til útlendinga og um leið freista þess að skapa góða ímynd.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
ElinIngimundardottir_.pdf | 837,74 kB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna |