Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/11254
Í þessu verkefni er fjallað um þróun barnabótakerfisins og launa á árunum 2006 – 2011. Einnig eru skoðaðar heildargreiðslur barnabóta til einkaneyslu heimila frá árinu 2000 til 2010, og þær bornar saman við vísitölu neysluverðs frá sama tíma.
Rannsóknin byggir á gögnum frá Hagstofu Íslands og Ríkisskattstjóra. Gögnin voru sett upp í töflur og myndir svo þau yrðu meðfærilegri og betur fallin til samanburðar.
Þegar þróun barnabótakerfisins var borin saman við laun voru tekin dæmi um hjón með 2 börn og einhleypan einstakling, karlmann og kvenmann, hvort um sig með 2 börn. Í öllum tilvikum var annað barnið yngra en 7 ára. Tekin voru heildarlaun karla, kvenna og hjóna og þróun þeirra skoðuð. Heildarlaun fólks tóku verulegum breytingum við efnahagshrunið árið 2008. Í dag er launaskrið þó aftur orðið svipað og laun orðin hærri en fyrir efnahagshrunið.
Þó nokkrar breytingar hafa orðið á barnabótakerfinu á þessum 6 árum en sú áhrifamesta er að árið 2010 var viðbót vegna barna yngri en 7 ára tekjutengd. Skerðingin, vegna þessara breytingar, á útreiknuðum barnabótum var allt frá 10% hjá einhleypum kvenmanni í neðri fjórðungsmörkum launa, upp í 100% hjá hjónum í efri fjórðungsmörkum.
Þróun greiddra barnabóta á árunum 2000 - 2010 var borin saman við þróun vísitölu neysluverðs og sást að ferlarnir voru mjög líkir framan af. Það gefur til kynna að barnabótagreiðslur hafa hækkað í takt við hækkun á einkaneyslu. Síðan árið 2009 gerist það að niðurskurður innan barnabótakerfisins hefst á meðan hlutur einkaneyslu heldur áfram að aukast, sem bitnar á þeim börnum sem búa við knappar heimilisaðstæður. Það er því hægt að halda því fram að barnabótakerfið hafi ekki staðið vörð um aðstæður barna síðastliðin ár, heldur þvert á móti gert þær verri með þessum niðurskurði.
Á árunum 2008 – 9 lækkuðu laun í landinu á sama tíma og kostnaður við einkaneyslu jókst að sama skapi. Getum við því gefið okkur að fjölskyldur hafi þurft að draga verulega saman í neyslu sinni. Og þó launin hafi aftur farið hækkandi smám saman þá hélt vísitala neysluverðs áfram að taka stökk upp á við. Þannig að þessi skerðing innan barnabótakerfisins hefur í rauninni þyngt róður barnafjölskyldna.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
Svanhvit_Eggertsdottir_BS.pdf | 290,76 kB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna |