Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/11258
Í almennri umræðu er költ hugtak sem notað er yfir hið skrítna og það sem er öðruvísi í kvikmyndum og viðtökum á þeim. Staða þess er óstöðug og í vefverslunum er það stundum að finna innan um greinaskilgreiningar og annarsstaðar ekki. Fræðimenn hafa tekið á þessum vanda og költmyndir hafa verið skilgreindar viðtökufræðilega en þó með textalegum einkennum. Í ritgerðinni fer ég yfir mismunandi nálganir á költ þar sem ég skoða textaleg, félagsleg, trúarleg og að lokum greinafræðileg einkenni þess.
Textalega hafa költmyndir einkenni sem fara út fyrir hefðbundna fagurfræði, þær beygja og breyta greinahefðum og byggja mikið á ofgnótt og textatengslum. Þessi einkenni má finna oftar innan ákveðinna kvikmyndagreina en annarra, en költ kemur þó úr öllum kvikmyndagreinum. Félagsleg staða kvikmyndaaðdáenda ræðst oft af meðvitaðri neyslu á ákveðnum textum sem fáir horfa á en eru leið til þess að skilgreina sjálfið með neyslu. Költmyndir má skoða út frá félagsfræðilegum hugmyndum um jaðarhópa þar sem hluti kvikmyndamenningarinnar sker sig frá hinu ,,eðlilega” og skapar sitt eigið svæði með annarri hegðun, klæðaburði og hugmyndafræði. Viðtökur költmynda fela í sér virkni áhorfenda sem búa til og breyta jafnvel merkingu myndarinnar. Þetta gerist oft á sérstökum sýningum þar sem sami hópur fólks mætir reglulega og horfir á sömu myndina, klæðir sig upp, tekur virkan þátt og breytir og bætir við kvikmyndatextann með eigin virkni. Þá er trúarlegur þáttur falinn í helgisiðalegri uppsetningu og endurtekningum á hegðun áhorfenda á sýningum sem og tengingu áhorfenda við textann sem jaðrar að vera trúarlegs eðlis.
Í ritgerðinni leitast ég við að skoða költ með greinafræðikenningu Rick Altman sem kallast merkingarfræðileg/setningafræðileg/pragmatísk nálgun. Með henni má taka saman þau atriði sem einkenna költ og virkni þess, sér í lagi þar sem kenning Altman býður upp á að skoða mismunandi túlkunaraðferðir áhorfenda og virkni greinamynda á áhorfendur. Einkenni költmynda eru mörg afar óhefðbundin, þau tengjast því sem er öðruvísi og skrítið innan kvikmynda og viðtökum á þeim. Með því að nota aðferð Altman má gera sér grein fyrir virkni költhugtaksins og breytileika þess þar sem hún býður upp á sveigjanleika og mismunandi nálganir á költ. Annars vegar má skoða framleidd einkenni þess að fara út fyrir textaleg eða viðtökufræðileg mörk og hins vegar goðsögulega stöðu áhorfenda og texta fyrir utan ,,hið eðlilega.” Költmyndir eru brotakenndur flokkur ólíkra kvikmynda sem erfitt er að gera sér grein fyrir, en með því að beyta kenningu Rick Altman má sjá þær í öðru og mögulega skýrara ljósi.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
GunnarTomasMA.pdf | 858.48 kB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna |