Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/11305
Það að setja nýja vöru á markað getur verið torsótt ferðalag fyrir fyrirtæki. Oft eru hugmyndir illa ígrundaðar og taka ekki mið af væntingum viðskiptavina heldur einungis því sem starfsfólk eða stjórnendur halda að viðskiptavinurinn vilji. Þetta verkefni snýst um vöruþróun og er unnið eftir þrepa-og gáttaferli (Stage-Gate®). Tilgangur verkefnisins er að leggja mat á stærð markaðar fyrir ákveðna tegund af ráðgjöf sem felst í að hjálpa stórum og meðalstórum þjónustufyrirtækjum á Íslandi við að leggja mat á gæði þjónustu, gera tillögur að úrbótum og stýra og/eða taka þátt í innleiðingu breytinga.
Ráðgjöfin var skilgreind og verkþættir hennar útlistaðir með aðstoð leiðbeinanda og grundvallað af gæðalíkani þjónustu (GAP-model). Markaðsaðstæður fyrir ráðgjöfina voru síðan kannaðar með megindlegri rannsókn í formi spurningakönnunar og þátttakendur voru beðnir um að meta hve líklegir þeir væru til að nýta sér ráðgjöfina við mismunandi verð. Rannsóknarspurningin var þessi: Hversu líkleg eru stór og meðalstór þjónustufyrirtæki á Íslandi til að nota ráðgjöfina á næstu 12 mánuðum?
Helstu niðurstöður rannsóknarinnar voru að stór og meðalstór þjónustufyrirtæki á Íslandi væru ekki líkleg til að nýta sér ráðgjöf við að leggja mat á gæði þjónustu, gera tillögur að úrbótum og stýra og/eða taka þátt í innleiðingu breytinga, á næstu 12 mánuðum. Niðurstöður gáfu einnig vísbendingu um að eftirspurn fyrir ráðgjöfina væri næm fyrir verði, þ.e markhópurinn væri líklegri til þess að nýta sér ráðgjöfina þegar verðið er lægra en hærra.
Aðferðafræði þrepa-og gáttaferlisins kom að góðum notum við að meta og þróa viðskiptahugmyndina. Ef vel er gert hjálpar ferlið til við að greina hvort hugmyndir eru líklegar til að skila árangri og þróa þær fyrir réttan markhóp.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
Ráðgjöf til að bæta gæði þjónustu_vöruþróunarverkefni.pdf | 911,44 kB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna |