Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/11306
Í ritgerðinni er fjallað um hvort gott bragð sé eiginleiki og hvort bragðsmekkur sé algerlega huglægur. Ríkjandi skoðun um hvað sé gott bragð er mótuð af afstæðishyggju um smekk sem kveður á um að allur smekkur sé jafngildur. Af þeirri skoðun leiðir að ekki verður deilt um smekk: Hver hefur einfaldlega sinn smekk. Niðurstöður úr vínsmökkunaræfingum benda hins vegar í fyrsta lagi til þess að smekksdómar um gott bragð séu mikið til samhljóða og í öðru lagi að sumir smakkarar séu öruggari og betri dómarar en aðrir. Þetta virðist ganga gegn ríkjandi skoðun um afstæði og huglægni smekksdóma. Skýringin gæti verið sú að fyrirbærið gott bragð sé á einhvern hátt til sem hlutlægur eiginleiki og hæfni til að skynja þennan eiginleika sé misjöfn.
Til að undirbyggja þessa kenningu er í ritgerðinni stuðst við þrenn rök: frumrök, sem segja að allir hafi áskapaðan náttúrusmekk; hóprök, sem segja að þrátt fyrir hina ríkjandi skoðun um að hver hafi sinn smekk, þá ríki í stórum dráttum samþykki eða samdómur um smekk; og í þriðja lagi gildisrök, sem höfða til skynseminnar og tengja neyslu dýrra hluta við eftirsóknarverð gæði.
Afstæðishyggju um smekksdóma sem eru settir fram á forminu mér finnst er vísað frá sem óviðeigandi. Smekksdómur á forminu þetta er gerir tilkall til algildis. Um slíka dóma gildir leyfist hins vegar takmörkuð afstæðishyggja, því sumir fella betri eða réttari smekksdóma en aðrir. Slíka einstaklinga má kalla ‘góða gagnrýnendur’. Smekksdómar geta því aðeins verið ‘réttir’ að þeir hafi hlutlægan grundvöll. Af því leiðir að hægt er að tala um bragðgæði sem hlutlægan eiginleika.
Gott bragð er einungis til í þeim skilningi að einhver finni það. Þess vegna er gott bragð mannhverfur eiginleiki, en samt sem áður hlutbundinn og fylgir viðfangi bragðsins. Slíkan eiginleika mætti kalla þriðja stigs eiginleika, með hliðsjón af þekktri skiptingu Lockes.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
Skúli Magnússon.pdf | 360.33 kB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna |