Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/11369
Aðila einkamáls greinir iðulega á um málsatvik og því leikur oft vafi á um hvað skuli leggja til grundvallar. Með sönnunarfærslu leitast aðilar við að sýna dómara fram á og sannfæra hann um að staðhæfingar þeirra um umdeild atvik séu réttar. Við sönnunarfærsluna notast aðilar við tiltekin sönnunargögn og beita tilteknum sönnunaraðferðum. Í samræmi við meginregluna um frjálst sönnunarmat dómara er það hlutverk hans að leggja mat á sönnunarfærslu aðila og skera úr um hvort staðhæfingar þeirra teljist sannaðar. Þetta mat dómara byggir á þeim reglum sem gilda um sönnun í einkamálum. Við sönnunarmatið metur dómari hvort sönnunargildi fyrirliggjandi sönnunargagna uppfylli þær sönnunarkröfur sem gerðar eru til þess að tiltekin staðhæfing um umdeild atvik teljist sönnuð. Í þeim tilvikum þar sem sönnunarkröfurnar eru ekki uppfylltar verður dómari að taka afstöðu til þess hvor aðila eigi að bera hallann af þeim sönnunarskorti. Meðal þeirra sönnunargagna sem byggt verður á í einkamálum eru matsgerðir dómkvaddra matsmanna. Í dómaframkvæmd Hæstaréttar og skrifum fræðimanna á sviði einkamálaréttarfars hefur verið talið að matsgerðir hafi verulegt sönnunargildi. Þær hafa því ákveðna sérstöðu meðal sönnunargagna einkamáls. Umfjöllunarefni ritgerðarinnar er tvíþætt. Annars vegar er fjallað um helstu atriði sönnunar í einkamálum og hins vegar eru matsgerðir dómkvaddra matsmanna teknar til sérstakrar skoðunar. Meginmarkmið umfjöllunarinnar um sönnun er að veita yfirsýn yfir helstu atriði hennar í íslensku einkamálaréttarfari. Leitað er svara við því hvað felist í hugtakinu sönnun í einkamálum, hvað þurfi að sanna, og hvernig sönnunarfærslu er háttað. Jafnframt er gerð grein fyrir sönnunarmati og reglum um afmörkun á sönnunarbyrði í einkamálum. Í umfjöllun ritgerðarinnar um matsgerðir er gerð er grein fyrir heimild aðila til að afla matsgerðar og við hverju leitað verður svara með dómkvaðningu matsmanns. Jafnframt er fjallað um sönnunargildi matsgerða í einkamálum og atriði sem geta haft áhrif á það. Einnig er gerð grein fyrir reglum laga um meðferð einkamála um form og efni dómkvaðningar, framkvæmd mats og niðurstöðu þess. Þá er fjallað um heimild aðila til að afla nýrrar matsgerðar þegar matsgerð liggur þegar fyrir í máli, öflun matsgerðar fyrir öðrum dómi og öflun matsgerðar án þess að mál hafi verið höfðað. Að lokum er gerð grein fyrir heimild dómara til að kveðja til sérfróða meðdómendur í einkamáli, hlutverki þeirra og samspili við matsgerðir dómkvaddra matsmanna.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
Sönnun í einkamálum-Matsgerðir.pdf | 1.28 MB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna |