is Íslenska en English

Lokaverkefni (Meistara)

Háskóli Íslands > Hugvísindasvið > Meistaraprófsritgerðir - Hugvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/11394

Titill: 
  • heillri, gamallrar, beinnra: um r-myndir lýsingarorða sem enda á -ll og -nn
Námsstig: 
  • Meistara
Útdráttur: 
  • Í elstu íslensku handritunum hafa einkvæð lýsingarorð með stofna sem enda á -nn og einkvæð og tvíkvæð lýsingarorð með stofna sem enda á -ll aukafallsmyndir án -r, t.d. þgf. et. kvk. hreinni, sælli og gamalli, ef. et. kvk. hreinnar, sællar og gamallar og ef. ft. allra kynja hreinna, sælla og gamalla. Á 16. öld fara myndir með r-i að birtast og ná þær töluverðri útbreiðslu á 17. og 18. öld. Þannig sjást víða myndir eins og hreinnri í stað hreinni, sællrar í stað sællar og gamallra í stað gamalla. Á 19. öld dregur til tíðinda í sögu þessara mynda, sem hér verða kallaðar r-myndir. Þá fara málhreinsunarmenn að veita þeim eftirtekt og áhersla er lögð á það í kennslubókum og öðrum skrifum að nota beri hinar eldri myndir.
    Í þessari ritgerð verður litið á stöðu r-mynda frá því að þær fara að birtast á 16. öld og fram til nútímamáls. Megináhersla er þó lögð á að komast að því hver staða þessara mynda var á 19. öld þegar þáttaskil verða í notkun þeirra. Í því skyni var notkun nokkurra lýsingarorða í 19. aldar textum könnuð og var þar sjónum beint að ólíkum textategundum til þess að freista þess að draga upp sem skýrasta mynd af útbreiðslu r-mynda meðal ólíkra þjóðfélagshópa. Einnig var gerð könnun á stöðu þeirra í nútímamáli.
    Allt bendir til þess að engin dæmi finnist um r-myndir fyrr en á 16. öld og sjást þær víða í textum frá 17. og 18. öld. Gömlu myndirnar hverfa þó aldrei alveg úr málinu. Í upphafi 19. aldar fara málhreinsunarmenn að gefa þessum lýsingarorðum gaum og upp frá því líta menn á hinar eldri myndir sem réttar myndir. Fá dæmi um r-myndir er að finna í tímaritum frá 19. öld, enda eru það prentaðir textar sem oftar en ekki eru skrifaðir af þeim sem stýra umræðunni og aðhyllast málhreinsunarstefnu. Hlutfallslega fleiri dæmi er að finna í bréfaskrifum alþýðufólks á sama tíma enda er þar um að ræða óprentuð, persónuleg skrif fólks sem ólíklegt er að hafi kynnst hugmyndum menntamanna um rétt mál og rangt. Í nútímamáli eru r-myndir í miklum minnihluta en finnast þó enn.

Samþykkt: 
  • 4.5.2012
URI: 
  • http://hdl.handle.net/1946/11394


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
MA_ritgerd_Halldora_2012.pdf2.94 MBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna