is Íslenska en English

Lokaverkefni (Meistara)

Háskóli Íslands > Félagsvísindasvið > Meistaraprófsritgerðir - Félagsvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/11434

Titill: 
 • Breytingar á samningum sem komast á í kjölfar opinbers útboðs
Námsstig: 
 • Meistara
Útdráttur: 
 • Markmið þessarar ritgerðar er að leitast við að svara þeirri spurningu hvort hægt sé að brjóta gegn lögum um opinber innkaup nr. 84/2007 eftir að samningur er kominn á. Í þessu skyni verða skoðuð ákvæði laga um opinber innkaup með hliðsjón af skuldbindingum Íslands vegna samningsins um Evrópska efnahagssvæðið. Þá verður gerð grein fyrir dómaframkvæmd og úrskurðum kærunefndar útboðsmála, bæði hérlendis og í Danmörku, á þessu sviði.
  Ritgerðin er byggð upp með þeim hætti að í 2. og 3. kafla verður fjallað um þær réttarheimildir sem gilda á sviði opinberra innkaupa, en tilgangurinn með því er að lesandi nái yfirsýn yfir hvaða aðilar og samningar falli undir lögin. Fyrst verður þó fjallað um þær lagaskilareglur sem gilda um samninga í opinberum innkaupum. Í þriðja kafla verður svo farið yfir tilskipanir EB á sviði opinberra innkaupa og áhrif þeirra á landsrétt. Þar á eftir verður gerð nokkuð ítarleg grein fyrir lögum nr. 84/2007 um opinber innkaup, gildissviði þeirra og hvaða aðilar og samningar falla undir þau. Einnig verður farið yfir reglugerðir settar með stoð í lögum um opinber innkaup, lög um framkvæmd útboða nr. 65/1993 skoðuð og því næst kannað hvort meginreglur stjórnsýslulaga gildi við beitingu ákvæða laga um opinber innkaup. Í lok kaflans verður svo gerð grein fyrir þeim meginreglum sem gilda sérstaklega um opinber innkaup.
  Í 4. kafla verður farið í breytingar sem eiga sér stað í útboðsferlinu. Í fyrri hluta kaflans verður farið yfir heimild bjóðanda til að breyta tilboðum efnislega og til að lagfæra villur eftir að tilboðsfresti lýkur. Í seinni hluta kaflans verður farið í hvort og þá að hvaða leyti stjórnvald getur breytt útboðsgögnum eftir að útboðsferli er hafið.
  Í 5. kafla er komið að meginefni ritgerðarinnar. Í kaflanum verður fjallað um heimild til breytinga á samningum sem komast á eftir opinber útboð og er kaflanum skipt niður í allnokkra undirkafla eftir tegund breytinga. Markmið kaflans er að draga fram hvaða breytingar eru heimilar og undir hvaða kringumstæðum. Farið verður yfir tilvik þar sem helst reynir á hvern þátt breytinga með vísan til úrskurða og dómaframkvæmdar. Fyrst verður fjallað um breytingar sem hafa áhrif á markhóp bjóðenda eða val á tilboði. Þar á eftir verður farið í hvort og þá að hvaða leyti verðbreytingar á samningum eru heimilar og er þeirri umfjöllun skipt niður í kafla eftir ástæðum verðbreytinga. Því næst verður farið í breytingar á efni samnings og þau atriði sem horfa þarf til þegar metið er hvort efnisleg breyting á samningi sé heimil. Þá verður farið í breytingar á aðilum samnings vegna breytinga á eignarhaldi félags, framsals samnings, samruna félaga, innra skipulags í félögum o.s.frv. og verður í kjölfarið fjallað um breytingar á undirverktökum. Næst verður farið í breytingar á gildistíma samnings og þau skilyrði sem verða að vera uppfyllt svo slíkt sé heimilt. Þá verður stuttlega gerð grein fyrir fyrirvörum sem aðilar geta komið sér saman um og hvaða kröfur fyrirvarar verða að uppfylla. Í lok kaflans verður fjallað um breytingar á samningum sem komust á fyrir innleiðingu tilskipunar 2004/18 og hvort aðilar þurfi að taka tillit til ákvæða hennar við breytingar.
  Í 6. kafla verður farið í þau ákvæði laga um opinber innkaup sem heimila, undir vissum kringumstæðum, breytingar á samningum. Skilyrði ákvæðanna verða skoðuð sem og dómar í því skyni að meta hversu langt má ganga í breytingum á samningum á grundvelli þeirra.
  Í 7. kafla er umfjöllunarefnið valdheimildir kærunefndar útboðsmála sem og þau úrræði sem kærunefndin hefur vegna brota á lögum um opinber innkaup. Til hliðsjónar verður velt upp þeirri spurningu hvort hægt væri að beita úrræðum nefndarinnar vegna brota á samningum eða hvort úrræði miðist aðeins við brot í útboðsferlinu. Í lokin verða svo skoðaðar þær breytingartillögur sem lagðar hafa verið fram í frumvarpi til breytingar á ákvæðum laga um opinber innkaup sem ætlað er að fela í sér innleiðingu á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins nr. 2007/66/EB.
  Í 8. kafla verða meginniðurstöður ritgerðarinnar dregnar saman og spurningunni, hvort mögulegt sé að brjóta gegn lögum um opinber innkaup eftir að samningur kemst á, verður svarað.

Samþykkt: 
 • 7.5.2012
URI: 
 • http://hdl.handle.net/1946/11434


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
MA-ritgerð.pdf623.37 kBLokaður til...01.05.2022MeginmálPDF
FORSÍÐA+MA-RITGERÐAR.pdf30.89 kBOpinnForsíðaPDFSkoða/Opna