Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/11465
Fimm Íslendingasögur af Norð-Austurlandi, Víga-Glúms saga, Svarfdæla saga, Valla-Ljóts saga, Ljósvetninga saga og Reykdæla saga og Víga-Skútu eru umfjöllunarefni þessarar ritgerðar. Inntak hennar er tvíþætt: Annars vegar að gera grein fyrir karlmennsku og hetjuímynd sagnanna og hins vegar að sýna fram á að sögurnar tengist innbyrðis og myndi eins konar sagnasveig.
Undanfarna áratugi hefur ríkt mikil gróska í rannsóknum á miðaldabókmenntum. Meðal fjölmargra viðfangsefna sem vekja áhuga fræðimanna eru hugmyndir genginna kynslóða um kyn (sex) og kynhlutverk (gender). Á seinni árum eru flestir sammála um að kynhlutverk verði til við félagslega mótun. Karlmennska og kvenleiki eru því ekki staðlaðar, líffræðilegar stærðir heldur síkvik hlutverk sem verða til í mannlegu samfélagi. Fjallað er um kenningar um kyn og kyngervi á miðöldum og stuðst við þær í greiningu á karlmennsku og hetjuímynd norðlenskra karlmanna í Íslendingasögunum fimm.
Íslendingasögur af Norð-Austurlandi, Víga-Glúms saga, Svarfdæla saga, Valla-Ljóts saga, Ljósvetninga saga og Reykdæla saga og Víga-Skútu gerast allar meira og minna í landnámi Helga magra og segja frá niðjum hans. Þær eiga það allar sameiginlegt að ögra hefðbundinni hetjuímynd og segja frá hetjum og höfðingjum sem rúmast ekki innan ramma hetjusagnahefðar. Þessar sögur mynda ákveðinn sagnasveig þar sem hver og ein saga leggur sitt af mörkum til þeirrar heildarmyndar sem sagnasveigurinn dregur upp af sífelldum ófriði og fallvaltri karlmennsku. Sögurnar sýna hver á sinn hátt, svo ekki verður um villst, að þar er á ferðinni meðvituð úrvinnsla á fornri hetjuhugsjón sem fellur illa að gildum þess samfélags sem sögurnar eru sprottnar úr. Styrkur sagnanna liggur því í afhelgun hetjunnar fremur en hyllingu hennar og birtir í senn endurgerð fortíðar og úrvinnslu samtíðar sem veitir innsýn í hugarheim 13. og 14. aldar manna.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
Hetjur á heljarþröm.pdf | 889.94 kB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna |