is Íslenska en English

Lokaverkefni (Bakkalár)

Háskóli Íslands > Hugvísindasvið > B.A. verkefni - Hugvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/11505

Titill: 
  • Á rauðu byltingarplani. Þættir úr sögu kommúnista á Siglufirði 1924-1934
Námsstig: 
  • Bakkalár
Höfundur: 
Leiðbeinandi: 
Útdráttur: 
  • Á Siglufirði var eitt helsta vígi kommúnista á fyrri hluta 20. aldar. Kommúnistar náðu snemma áhrifum á staðnum og átti Einar Olgeirsson mikinn þátt í að skipuleggja verkalýðshreyfinguna í síldarbænum. Stuðningur Verklýðsfélags Norðurlands var ekki síður mikilvægur í því samabandi. Stærstur hluti íbúa Siglufjarðar var af verkamannastétt og var fólki mikið í mun að tryggja sér bestu mögulegu kjör. Siglfirðirngar áttu mikinn þátt í stofnun Kommúnistaflokks Íslands og varð Siglufjarðardeild flokksins sú fjölmennasta á landinu, utan Reykjavíkur.
    Sumrin 1930 og 1931 dvaldi hópur ungra manna á Siglufirði við störf á síldarplani sem Síldareinkasala Íslands hafði tekið á leigu. Þar réð Einar Olgeirsson, einn helsti foringi kommúnista lögum og lofum. Einar kallaði til sín vini og félaga sem sökum stjórnmálaskoðana áttu sumir erfitt með atvinnu. Á hinu svokallaða Rauða plani voru saman komnir allir helstu forkólfar kommúnistahreyfingarinnar í landinu, og höfðu þeir veruleg áhrif á styrk og stefnu flokksbræðra sinna á Siglufirði. Á Rauða planinu hugðist Einar sýna fram á að hægt væri að verka síld með ódýrari hætti en gert var hjá einkaframtakinu, en að sögn hans var markmiðið þó einkum að ná mikilvægum hluta atvinnulífsins undan einkaaðilum til frambúðar. Einar Olgeirsson sá fyrir sér að Rauða planið yrði fyrsta skrefið í átt til sameignarskipulags framtíðarlandsins, Sovét-Íslands.
    Siglfirskir kommúnistar létu sitt ekki eftir liggja í baráttunni gegn jafnaðarmönnum og sjálfstæðismönnum og myndaðist sterkur forystuhópur á staðnum, ekki síst fyrir tilstuðlan þeirra eindregnu manna er dvöldu á Siglufirði við vinnu á Rauða planinu. Í fremstu víglínu stóðu Þóroddur Guðmundsson, Gunnar Jóhannsson, Angantýr Guðmundsson, Óskar Garibaldason, Hermann Einarsson og fleiri. Átök kommúnista og barátta þeirra gegn hinum andstæðu öflum var áberandi í síldarbænum, má í því samabandi nefna hlutverk kommúnista á Siglufirði í Krossanesdeilunni, Dettifossslaginn og fánamálið svokallaða, þegar eindregnir kommúnistar á staðnum rifu niður nasistafánann við bústað þýska konsúslsins.
    Í ritgerðinni verða teknir fyrir þættir út sögu kommúnista á Siglufirði og verður leitast við að sýna fram á styrk kommúnista og vinstri manna á staðnum á fyrri hluta síðustu aldar, auk þess sem grafist verður fyrir um ástæður þess að hreyfingin var svo sterk sem raun bar vitni.

Samþykkt: 
  • 8.5.2012
URI: 
  • http://hdl.handle.net/1946/11505


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
BA.AnitaElefsen.pdf1.26 MBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna