Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/11568
Árið 1930 urðu mikil þáttaskil í íslenskri byggingarlist þegar áhrifa funksjónalismans fór að gæta. Þessi nýja stefna var kynnt á Stokkhólmssýningunni árið 1927 og hafði hún áhrif á unga íslenska arkitekta sem þá voru í námi. Á aðeins nokkrum árum varð þessi stefna allsráðandi á Íslandi og mátti greina áhrif hennar í flestum þeim byggingum sem reistar voru hér á landi á 4. áratugnum. Húsnæðisneyð og veikindi voru helstu vandamálin sem hrjáðu Evrópubúa á þessum tíma og margir bjuggu í lélegum og heilsuspillandi húsum. Fullyrt var að funksjónalisminn væri lausnin við þessum vanda. Ætlunin var að nýta nýjustu tækni til þess að bæta húsakost og umhverfi fólks með því að hanna og skipuleggja betra umhverfi og húsnæði.
Í þessari ritgerð er sjónum beint að einkennum þessarar nýju stefnu og hvernig hún hafði áhrif á íslenska arkitekta. Til að afmarka viðfangsefnið er athugað hvernig þessi áhrif birtust í hönnun fyrstu verkamannabústaðanna í Reykjavík sem reistir voru á árunum 1931-1937. Um er að ræða tvær þyrpingar húsa sem byggðar voru í þremur áföngum. Fyrsti og annar áfangi var teiknaður af Einari Erlendssyni og húsameistara ríkisins Guðjóni Samúelssyni. Þriðji áfanginn var teiknaður af Gunnlaugi Halldórssyni arkitekt.
Til þess að athuga hvernig hugmyndir funksjónalismans endurspeglast í þessum mismunandi útfærslum verða húsaþyrpingarnar tvær bornar saman með tilvikarannsókn. Þetta tiltekna dæmi hentar vel til slíks samanburðar þar sem þyrpingarnar tvær standa hlið við hlið á húsareitum sem að flestu leyti eru sambærilegir. Með samanburði á einstökum þáttum í hönnun þessara húsaþyrpinga er ætlunin að leiða í ljós hvað er líkt og ólíkt með úrlausn arkitektanna. Það felur í sér samanburð á skipulagi reita og samröðun húsa með tilliti til sólarátta, innra skipulagi íbúða, gluggaskipan og öðrum útlitseinkennum bygginganna.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
Lokaritgerd.pdf | 1.08 MB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna |