Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/11612
Á þriðja og fjórða áratug 20. aldar heimsóttu yfir 100.000 manns Sovétríkin. Tug þúsundir þeirra voru menntamenn, rithöfundar, listamenn og fræðimenn sem vildu sjá samfélagstilraun bolsévíka með eigin augum. Á þessum árum áttu Sovétríkin sér marga aðdáendur um allan heim og fjölmargir alþjóðlegir rithöfundar lögðu blessun sína yfir einræðisríkið og þá harðstórn sem þar ríkti. Ísland var engin undantekning að þessu leyti því tveir stærstu rithöfundar landsins, Halldór Laxness og Þórbergur Þórðarson, voru hallir undir stefnu Sovétríkjanna.
Í þessari ritgerð er fjallað um sovétferðalýsingar Íslendinga á árunum 1928–1937. Rannsóknin er byggð á ferðalýsingum tveggja rithöfunda, eins menntamanns og tveggja alþýðumanna. Rýnt er í íslensk dagblöð á þessum árum sem og bækur og tímaritsgreinar sem fjalla um íslensku ferðalangana. Fjallað er um kenningar erlendra og innlendra fræðimanna er varða stuðning ,,samferðamanna“ við Sovétríkin og hvaða ástæður lágu að baki hrifningu þeirra. Sýnt er fram á að sovétferðalýsingar millistríðsáranna taka breytingum eftir efnahagshrunið 1929 og jafnframt er leitt í ljós hvernig afstaða aðdáenda landsins breytist í takt við áherslubreytingar Moskvuvaldsins.
Einnig er gerð grein fyrir hvaða hlutverki rithöfundar töldu sig gegna á þessum tíma og reynt er að lýsa tíðaranda þessara ára til að varpa ljósi á hrifningu þessa fólks. Sagt er frá helstu einkennum sovétferðalýsinga og þá aðallega út frá ferðabókum Halldórs Laxness, Þórberg Þórðarsonar og Kristins E. Andréssonar.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
Titilsíða.pdf | 5.76 kB | Opinn | Titilsíða | Skoða/Opna | |
Meginmál.pdf | 672 kB | Opinn | Meginmál | Skoða/Opna | |
Forsíða.pdf | 28.35 kB | Opinn | Forsíða | Skoða/Opna |