Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/11645
Ýfing (priming) er ferli sem gerir það að verkum að þegar áreiti í sjónleitarverkefni eru endurtekin beinist athyglin ósjálfrátt að þeim og gerir úrvinnslu þeirra auðveldari. Talið er að um frumstætt, ómeðvitað minniskerfi (implicit memory) sé að ræða í ýfingu. Maljkovic og Nakayama (1994, 1996) notuðu sjónleitarverkefni til að kanna ýfingu staðsetningar og litar í útstökksverkefnum (pop-out). Rannsóknir þeirra leiddu í ljós fljótari úrvinnslu þegar staðsetning og litur markáreitis voru endurtekin sem og vísbendingu um það að ýfing gæti átt sér stað fyrir fleiri en eina staðsetningu í einu. Markmið þessarar tilraunar var að skoða enn frekar ýfingaráhrif fyrir lit og staðsetningu og hvort hún gæti átt sér stað fyrir tvær staðsetningar samtímis. Tvær tilraunir voru framkvæmdar þar sem að níu bókstafir á 3x3 formi birtust í mjög skamma stund. Í tilraun eitt birtist einn bókstafur í hverri umferð í öðrum lit en hinir sem þátttakendur áttu að greina frá en í tilraun tvö birtust tveir stafir í einu. Átta þátttakendur á aldrinum 20-28 ára tóku þátt í báðum tilraunum. Tilgátur tilraunarinnar voru þær að endurtekning á birtingu áreitis hefði jákvæð áhrif bæði á staðsetningu og lit og að ýfingaráhrif gætu átt sér stað fyrir tvær staðsetningar samtímis. Helstu niðurstöður voru þær að ýfingaráhrif var að finna bæði fyrir lit og staðsetningu í fyrri tilrauninni þar sem greina átti einn bókstaf. Í síðari tilrauninni þar sem greina átti tvo bókstafi mátti einnig sjá litaýfingu en ýfingaráhrif fyrir tvær staðsetningar samtímis voru ekki marktæk.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
BS.HEIDRUN.HAFTHORSDOTTIR.pdf | 475.03 kB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna |