Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/11735
Um miðja síðustu öld kom fram á sjónarsviðið maður sem myndi gjörbreyta kvikmyndaiðnaðinum í Hollywood og víðar. Þetta var grafíski hönnuðurinn Saul Bass og það sem hann gerði fyrir fortitlahönnun er enn við lýði í dag. Með samstarfi hans við Alfred Hitchcock, Otto Preminger, Billy Wilder, Martin Scorcese og fleiri leikstjóra opnaði hann augu heimsins gagnvart möguleikunum fyrir grafíska hönnun í kvikmyndum. Síðan þá hafa hönnuðir sem vinna við kvikmyndagerð haldið á lofti hugmyndafræði Bass um að skapa fortitla sem fara að kjarna myndarinnar og skapa ómeðvituð tengsl við áhorfandann. En áhrifin sem fortitlar hafa á kvikmyndagesti eru af mörgum toga. Sumir hönnuðir og aðrir aðilar innan kvikmyndageirans hafa haldið því fram að fortitlar eigi að þjóna hagkvæmum og huglægum tilgangi; að viðurkenna aðstandendur kvikmyndarinnar og á sama tíma skapa andrúmsloft sem endurspeglar þá stemningu sem ríkir í kvikmyndinni sem fortitlunum fylgja. Þó að ekki sé hægt að færa sönnur fyrir því að fortitlar auki skemmtanagildi kvikmyndar, geri hana betri eða skili sér í auknum gróða, þá eru fortitlahönnuðir enn að vinna hörðum höndum við að skapa það sem telja mætti list. En á meðan tækninni hleypir fram og möguleikunum við fortitlahönnun fjölgar þá virðast fortitlar engu að síður vera sjaldséðir hvítir hrafnar í kvikmyndaiðnaðinum í dag. Vissulega eru það fríðindi hvers leikstjóra fyrir sig að ákveða hvort fortitlar eigi að fylgja myndinni, en í þessari ritgerð verður lagt kapp á að benda á kosti fortitla og um leið réttlæta tilveru þeirra, af því að fortitlahönnun, ólíkt annarri list, gefur hönnuðum kleift að leika sér með liti, hreyfandi myndir, form, letur og tónlist, og sameina það allt undir einum hatti. Enn fremur má nefna að það sem fortitlar eiga sameiginleg með t.d. myndlist, er m.a. það að þeir bera vitni um breytingar í samfélaginu, hvort sem þessar breytingar eru tæknilegar eða hugmyndafræðilegar og endurspegla tíðaranda hverrar kynslóðar.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
Lokaritgerd.pdf | 3.14 MB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna |