Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/11893
Inngangur: Rannsóknir hafa sýnt fram á tengsl meiri líkamsfitu við aukna áhættu á þróun ákveðinna sjúkdóma t.d. hjarta- og æðasjúkdóma. Myndgreining gegnir stóru hlutverki í mælingum á fitu þar sem notuð er tölvusneiðmynd (TS), segulómun (SÓ) eða beinþéttnimælitæki (e. dual-energy X-ray absorptiometry (DXA)). Einnig eru aðrar aðferðir notaðar sbr. líkamsþyngdarstuðull (e. body mass index (BMI)), viðnámsmæling (e. bioelectrical impedance analysis (BIA)) og mittisummálsmæling (e. waist circumference). Það er álitamál hvaða aðferð sé best að nota með tilliti til nákvæmni niðurstaðna og vægi kosta yfir galla.
Markmið: Markmið rannsóknarinnar var að bera saman þær rannsóknaraðferðir sem notaðar voru til að mæla líkamsfitu í Öldrunarrannsókn Hjartaverndar á árunum 2002 til 2006 og varpa þannig ljósi á það hvort einhverri rannsókn sé ofaukið.
Efni og aðferðir: Þátttakendur voru á aldrinum 66 til 95 ára en þeir voru 5.500 talsins. Þeir sem höfðu ekki allar mælingarnar voru teknir ásamt útlögum út úr gögnunum og stóð þá fjöldi þátttakenda í 3.905. Fjöldi kvenna var 2.201 (56%) og karla var 1.704 (44%). Þátttakendum var skipt niður í fimm aldurshópa; -69, 70-74, 75-79, 80-84 og 85+. Líkamsfitumælingar sem notaðar voru í Öldrunarrannsókn Hjartaverndar voru BMI, BIA, mittisummálsmæling og TS. Reiknað var meðaltal og staðalfrávik fyrir hverja breytu. Línuleg aðhvarfsgreining (ANOVA) var framkvæmd til að kanna samband fitubreyta við aldur og kyn. Þá voru öll gögnin unnin í SAS til að reikna út fylgnistuðul milli hverra breytu með 95% öryggisbili. Fisher z-próf var svo notað til að prófa hvort fylgnin væri marktæk. Fylgnistuðlamyndfylki var útbúið en þar voru breytur mælinga bornar saman.
Niðurstöður: Markverðustu niðurstöðurnar var mikið samræmi á milli BMI og TS heildar kviðfitu (fylgni: 0,89), BIA fitumassa og TS heildar kviðfitu (fylgni: 0,88), BIA fitumassa og TS kviðfitu undir húð (fylgni: 0,87) og ummálsmælingu og TS heildar kviðfitu (fylgni: 0,85). Breyturnar með minnstu fylgnina (0,03) voru BIA fitufrír massi og TS kviðfita undir húð.
Ályktanir: Þrátt fyrir að rannsóknin sýni háa fylgni á milli mismunandi mæliaðferða er ekki hægt útiloka einhverja aðferð. Þar sem þeim fylgir mismikil áhætta og nákvæmni þeirra breytileg er gagnlegast að nota þær á víxl eftir því hvað á að mæla. Hentugt er að nota ódýrari og áhættuminni mæliaðferðir í þeim tilvikum þar sem upplýsingageta þeirra er nægileg í stað þeirra dýrari og áhættumeiri.
Lykilorð: Geislafræði, Tölvusneiðmynd, Fitumælingar
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
Diplómaritgerð - Kolbrún Gísladóttir.pdf | 909.15 kB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna |