Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/11955
Inngangur
Cerebral amyloid angiopathy (CAA) er sjúkdómsástand sem einkennist af uppsöfnun torleystra próteina; mýlildis (e. amyloid), innan heilaæða. Undir þann flokk sjúkdóma fellur arfgeng íslensk heilablæðing, en meinvaldur hennar er stökkbreytt prótein, cystatin C, sem myndar mýlildi. Uppsöfnun þráðlaga forms þess er eitruð sléttvöðvafrumum í vegg heilaæðanna og afleiðingarnar eru endurteknar heilablæðingar. Markmið rannsóknarinnar var að kanna áhrif cystatin C mýlildis á mannafrumurnar THP-1 monocyta. Könnuð var upptaka þess, auk sjálfsáts (e. autophagy); ferils frumunnar sem snýr að eyðingu uppsafnaðra próteina.
Efniviður og aðferðir
Mýlildi úr heilaæðum látinna sjúklinga með arfgenga íslenska heilablæðingu var einangrað og leyst upp fyrir notkun. Fylgst var með örlögum mýlildisins með tilliti til upptöku þess og eyðingu, eftir að THP-1 frumum var bætt á það. Oftast voru frumurnar sérhæfðar með PMA yfir í virkjaðar átfrumur sem festust við undirlag sitt. Mýlildið var flúrmerkt svo hægt væri fylgjast með upptöku þess bæði af fixeruðum og lifandi frumum. Einnig var rannsakað hvort frumurnar tjáðu meira af próteinum sem tengd eru sjálfsáti. Til þess var notast við mótefnalitun.
Niðurstöður
Eftir að frumunum var komið fyrir á flúrljómandi mýlildi voru teknar myndir daglega. Þær sýndu að ef frumurnar höfðu verið sérhæfðar með PMA festu þær sig frekar á mýlildið og átu það upp. Eftir viku var hægt að sjá að hluta mýlildisins hafði verið eytt.
Niðurstöður mótefnalitunar bentu til að prótein tengd sjálfsáti væru tjáð meira í frumum meðhöndluðum með cystatin C mýlildi.
Ályktanir
Uppsöfnun cystatin C mýlildis er líklega sjúkdómsvaldur arfgengrar íslenskrar heilablæðingar. Rannsóknir á áhrifum þess á frumur og eyðingu þess gætu gagnast til að hægja á eða koma í veg fyrir sjúkdóminn. Mikilvægt er að skilgreina hvaða ferlar koma að henni. Rannsóknir á öðru mýlildi, Aβ, í tilraunadýrum hafa sýnt að ef hæfni til sjálfsáts er aukin í miðtaugakerfinu með einum eða öðrum hætti hamlar það framgangi sjúkdómsins.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
Lokautgafan.pdf | 1.07 MB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna |