is Íslenska en English

Lokaverkefni (Bakkalár)

Háskóli Íslands > Heilbrigðisvísindasvið > B.S. verkefni - Heilbrigðisvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/11965

Titill: 
 • Tengsl BMP markgenanna Id1 og MSX2 í miðlagssérhæfingu stofnfrumna úr fósturvísum manna
Námsstig: 
 • Bakkalár
Útdráttur: 
 • Inngangur: Stofnfrumur úr fósturvísum manna (hES frumur) eru fjölhæfar og geta orðið að öllum frumutegundum líkamans. Einn vaxtarþáttanna sem stýra sérhæfingu þeirra er BMP sem er nauðsynlegur fyrir myndun miðlags (mesoderm) í fósturvísinum. Fyrri athuganir rannsóknarhóps Guðrúnar Valdimarsdóttur hafa sýnt að BMP eykur tjáningu á umritunarþættinum MSX2 og einnig á Id1 próteininu sem hindrar bindingu bHLH umritunarþátta við DNA. Þessi rannsókn miðar að því að athuga hvort tengsl séu milli Id1 og MSX2 með tilliti til tíma örvunar, staðsetningar og flókamyndunar.
  Efniviður og aðferðir: hES frumur voru ræktaðar og síðan örvaðar með BMP4 í mislangan tíma. Frumurnar voru einnig sýktar með adenoveirum sem tjáðu sívirkan BMP viðtaka. Tjáning Id1 og MSX2 á RNA stigi var athuguð með PCR og tjáning próteinanna skoðuð með western blotti. Til þess að athuga hvort próteinin tengdust saman í flóka var gerð mótefnafelling (immunoprecipitation) með mótefni gegn Id1 og í kjölfarið gert western blot með mótefni gegn MSX2. Staðsetning próteinanna í frumuþyrpingunum var skoðuð í confocal smásjá eftir mótefnalitun.
  Niðurstöður: RNA tjáning Id1 og MSX2 var aukin eftir örvun með BMP4 í einn og tvo sólarhringa en minnkaði eftir þrjá sólarhringa. RNA tjáning miðlagspróteinsins Brachyury var þá líka til staðar. Próteintjáning Id1 var aukin á sama tíma og einnig próteintjáning MSX2, þó hún hafi verið daufari. Þegar Id1 var einangrað úr BMP4 örvaðri frumulausn með mótefnafellingu fylgdi MSX2 ekki með í flóka. Þetta sást á Western blotti þar sem engin MSX2 bönd komu fram. Sömu niðurstöður fengust þrátt fyrir yfirtjáningu Id1 fyrir tilstilli adenoveirusýkingar. Þegar hES frumur voru sýktar með annarri adenoveiru til að fá þær til að tjá sívirkan BMP viðtaka og sýnin skoðuð í confocal smásjá sást aukin tjáning á bæði Id1 og MSX2 sem voru tjáð á sama stað í þyrpingunum. Smásjársýnin voru einnig lituð fyrir Oct4 sem einkennir ósérhæfðar frumur og var tjáningin þá í miðjum frumuþyrpingunum öfugt við MSX2 (og þar með Id1) sem var frekar á jöðrunum, einmitt þar sem sérhæfingin hefst.
  Ályktanir: Við BMP4 örvun virðast hES frumur þróast úr ósérhæfðum frumum yfir í miðlagsfrumur. Tjáning á Id1 og MSX2 er aukin fyrir tilstilli sama vaxtarþáttarins, BMP4, og er tjáning próteinanna tveggja í hámarki eftir jafn langan örvunartíma. Þau virðast hins vegar ekki mynda tengsl sín á milli í flóka, þrátt fyrir að vera tjáð á sama stað í frumuþyrpingunum, og hafa því trúlega ekki samlegðar- eða hindrunaráhrif hvert á annað í miðlagssérhæfingu.

Samþykkt: 
 • 4.6.2012
URI: 
 • http://hdl.handle.net/1946/11965


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
BSc- ritgerð Helga Þ..pdf1.19 MBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna