is Íslenska en English

Lokaverkefni (Bakkalár)

Háskóli Íslands > Heilbrigðisvísindasvið > B.S. verkefni - Heilbrigðisvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/11987

Titill: 
 • Ósæðarlokuskipti vegna ósæðarlokuþrengsla á Íslandi 2007-2009
Námsstig: 
 • Bakkalár
Útdráttur: 
 • Inngangur: Ósæðarlokuskipti er næstalgengasta hjartaaðgerðin á Íslandi og er oftast gerð vegna þrengsla í lokunni en sjaldnar vegna ósæðarlokuleka. Markmið þessarar rannsóknar var að kanna árangur ósæðarlokuskipta hér á landi á árunum 2007-2009 með áherslu á snemmkomna fylgikvilla og bera saman við fyrri rannsóknir sem náðu til áranna 2002-2006.
  Efniviður og aðferðir: Rannsóknin var afturskyggn og náði til 127 sjúklinga sem gengust undir lokuskipti vegna ósæðarlokuþrengsla á Landspítala 2007-2009. Ekki voru teknir með sjúklingar sem höfðu ósæðarlokuleka (n=15) eða höfðu áður farið í opna hjartaaðgerð (n=12). Auk þess var 5 sjúklingum sleppt þar sem sjúkraskrár fundust ekki. Upplýsingar fengust úr sjúkraskrám og voru skráðir áhættuþættir hjartasjúkdóma, aðgerðatengdir þættir, snemmkomnir fylgikvillar og dánarhlutfall innan 30 daga. Einnig voru skráðar niðurstöður hjartaómana fyrir og eftir aðgerð.
  Niðurstöður: Meðalaldur sjúklinga var 70,1 ár og voru 77 þeirra karlar (61%). Algengustu einkenni fyrir aðgerð voru mæði (90,6%) og hjartaöng (52%) en 18 (14,2%) höfðu sögu um yfirlið. Útfallsbrot hjarta var 55 % að meðaltali (bil: 20-77), hámarksþrýstingsfall yfir loku var 65 ± 24 mmHg, lokuop 0,73 cm2 ± 0,25 og reiknað EuroSCOREst var 7,2. Alls fengu 32 sjúklingar gerviloku en 95 fengu lífræna loku (74,8%) og voru 59 þeirra með grind og 36 án grindar. Meðalstærð ígræddra loka var 24,6 mm (bil 21-29), tangartími 109 mín. og vélartími 157 mín. Algengustu snemmkomnu minniháttar fylgikvillarnir voru hjartatif/flökt (67,3%), nýrnaskaði (18,9%), fleiðruvökvi sem krafðist aftöppunar (13,4%) og lungnabólga (7,1%). Af alvarlegum fylgikvillum voru hjartadrep í tengslum við aðgerð (10,2%) og fjöllíffærabilun (5,5%) algengust en auk þessu þurftu 12,6% sjúklinga að gangast undir enduraðgerð vegna blæðingar. Miðgildi legutíma var 11 dagar (bil: 3-144), þar af var 1 dagur á gjörgæslu. Alls létust 6 sjúklingar innan 30 daga (4,7%).
  Ályktun: Árangur ósæðarlokuskipta var góður á þessu þriggja ára tímabili og dánarhlutfall innan 30 daga tiltölulega lágt. Fylgikvillar voru tíðir, ekki síst gáttatif og enduraðgerðir vegna blæðinga. Frá fyrri rannsókn hefur notkun lífrænna loka með grind aukist, tangartími styst um 15 mínútur og tíðni nýrnaskaða lækkað úr 36% í 19%. Einnig benda niðurstöður til þess að þrýstingsfall sé minna og lokuop sé stærra fyrir aðgerð á seinna tímabilinu, sem gæti bent til þess að sjúklingar séu teknir fyrr í aðgerð en áður.

Samþykkt: 
 • 4.6.2012
URI: 
 • http://hdl.handle.net/1946/11987


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
AVRdadihelgason1.pdf2.09 MBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna