is Íslenska en English

Lokaverkefni (Bakkalár)

Háskóli Íslands > Heilbrigðisvísindasvið > B.S. verkefni - Heilbrigðisvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/12084

Titill: 
 • Áhrif kúrkúmíns til aukningar á næmi krabbameinsfrumna fyrir frumudeyðandi lyfjum. Gamalgróið leyndarmál í nútíma vísindum
Námsstig: 
 • Bakkalár
Útdráttur: 
 • Inngangur: Kúrkúmín, fjölfenól sameind sem er að finna í jarðstönglum Curcuma longa og virkasta efnið í túrmerik kryddi, býr yfir einstökum eiginleikum sem nýst geta við meðferð ýmissa sjúkdóma, þar á meðal við krabbameini. Það hefur reynst auka frumudrepandi áhrif krabbameinslyfja og þá aðallega með því að framkalla sjálfstýrðan frumudauða í fjöllyfjaónæmum krabbameinsfrumum. Markmið rannsóknarverkefnisins er að athuga áhrif kúrkúmíns á æxlisfrumur í rækt með eða án frumudeyðandi krabbameinslyfja á valdar frumulínur og frumur úr sjúklingum. Gerð verður grein fyrir ýmsum eiginleikum kúrkúmíns sem og rannsóknarvinnu á áhrifum þess til aukningar á næmi krabbameinsfrumna í rækt fyrir frumudeyðandi lyfjum.
  Efniviður og aðferðir: Notast var við tvær andrógen óháðar frumulínur úr blöðruhálskirtilsæxli, DU-145 og PC-3, auk ferskra eggjastokkaæxlisfrumna úr sjúklingi. Kúrkúmín var fengið frá Sigma og hefðbundin krabbameinslyf ásamt vökvasýni úr langt gengnu eggjastokkakrabbameini voru fengin frá Landspítala háskólasjúkrahúsi. Frumum var sáð á flata 96 holu bakka og baðaðar með mismunandi styrkjum kúrkúmíns með eða án mismunandi styrkja krabbameinslyfja. Að ákveðnum tíma liðnum var lífvænleiki frumna mældur í birtumæli sem byggir á efnahvarfi lúsiferín-lúsiferasa við ATP og sýnir nákvæmt ATP innihald frumna á tilteknum tímapunkti.
  Niðurstöður: Greinilegt er að kúrkúmín til viðbótar krabbameinslyfjum dragi úr lífvænleika frumulína og krabbameinsfrumna úr sjúklingi og auki þar með lyfjanæmi æxlisfrumna. Niðurstöðurnar staðfesta því niðurstöður fyrri rannsókna og sýna jafnframt fram á áhrif kúrkúmíns til aukningar lyfjanæmis eggjastokkaæxlisfrumna úr sjúklingi í rækt fyrir frumudeyðandi lyfjum.
  Umræða og ályktanir: Talið er að krabbameinsfrumur komi sér framhjá varnakerfi líkamans með því að hafa áhrif á margvíslegar boðleiðir sem gera þeim kleyft að lifa af. Þær ávinna sér þar að auki ónæmi gegn frumudeyðandi efnum og fjöllyfjaónæmar krabbameinsfrumur eru vandamál í almennri lyfjameðferð. Erfitt er að finna lyf sem hefur áhrif á fjölbreytt boðferli og er á sama tíma lyfjafræðilega öruggt og hefur engu náttúrulegu efni verið lýst sem hefur áhrif á jafnmargar og fjölbreytilegar boðleiðir og kúrkúmín. Eiginleikar þess, þá sérstaklega krabbameinshamlandi eiginleikar, eru því áhugaverðir til frekari rannsókna.

Samþykkt: 
 • 8.6.2012
URI: 
 • http://hdl.handle.net/1946/12084


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
Ritgerð Karenar final.pdf815.66 kBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna