is Íslenska en English

Lokaverkefni (Meistara)

Háskóli Íslands > Heilbrigðisvísindasvið > Meistaraprófsritgerðir - Heilbrigðisvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/12110

Titill: 
  • Munur á vöðvavinnu við stökk og lendingar hjá stúlkum og drengjum
Námsstig: 
  • Meistara
Leiðbeinandi: 
Útdráttur: 
  • Algengustu meiðslastaðir í kvennaknattspyrnu eru hné- og ökklameiðsli. Áverkar á fremra krossbandið eru ein af alvarlegri hnémeiðslunum í knattspyrnu og um 70% þessara meiðsla verða án snertingar við aðra leikmenn. Stelpur eru í 2 – 8 sinnum meiri hættu á að slíta fremra krossband en strákar. Kynjamunur sést í hreyfifærni og í kringum 12 ára aldur eru strákar bæði hærri og sterkari, en stelpurnar eru með meiri líkamsfitu og hærra BMI. Rannsóknir hafa sýnt að eftir kynþroska stökkva strákar hærra en þeir gerðu fyrir kynþroska, en enginn munur sést í stökkhæð hjá stelpunum fyrir og eftir kynþroska. Strákar eru einnig sterkari í framan- og aftanlærisvöðvum. Rannsóknir á jafnhreyfistyrk hafa sýnt að eftir að búið er að leiðrétta fyrir hæð og þyngd eru karlmenn með meiri styrk í framanlærisvöðvum, en ekki sást marktækur munur milli kynja í aftanlærisvöðvum.
    Markmið rannsóknarinnar var að bera saman eftirfarandi þætti milli 15 – 18 ára stráka og stelpna sem æfa knattspyrnu: 1) lóðrétt hámarksstökk 2) hopp og lendingartækni í fallhoppi 3) vöðvarafritsvirkni í kringum hné í hoppi og lendingu. 20 strákum og 17 stelpum frá þremur knattspyrnuliðum sem einnig voru í unglingalandsliði var boðin þátttaka. 10 strákar og 10 stelpur luku þátttöku. Niðurstöðurnar í lóðrétta hámarksstökkinu sýndu að strákarnir stukku marktækt hærra en stelpurnar (p < 0,001). Meðalstökkhæð strákanna var 30,7 ± 2,6 cm (spönn 25,5 – 34,8) og meðalstökkhæð stelpnanna var 23, 1 ± 3,7 cm (spönn 15,4 – 29,2). Allir mældir vöðvar voru orðnir virkir fyrir dýpstu stöðu nema miðþjóvöðvi (m. gluteus medius) beggja vegna hjá strákunum. Marktækur munur var á milli hægri og vinstri í hliðlægum víðfaðma (m. vastus lateralis) (p = 0,002), lærtvíhöfða (m. biceps femoris) (p = 0,001) og hálfsinungsvöðva (m. semitendinosus) (p = 0,03) þar sem hægri hliðin virkjaðist á undan. Marktækur munur sást á milli hliða á rót meðaltalskvaðrats (e. RMS) í dýpstu stöðu í öllum vöðvunum nema miðþjóvöðva (p = 0,04, 0,01, 0,001, 0,02) í lóðrétta hámarksstökkinu sem segir okkur að einstaklingarnir eru að stökkva upp af meiri krafti með öðrum fætinum en hinum.
    Í fallhoppinu var átakshornið marktækt stærra hjá stelpunum en strákunum í 3 af 5 stöðum í hoppinu: þegar tær snertu undirlag á leið niður (tá í) (p = 0,04, meðatal stelpur 14,7°, strákar 11,1°), þegar 25% var eftir af leið niður í dýpstu stöðu (25% niður) (p = 0,01, meðaltal stelpur 16,5°, strákar 10,6°), þegar tær slepptu undirlagi í uppstökki (tá af) (p = 0,001, meðaltal stelpur 17,2°, strákar 12,5°). Allir vöðvar voru orðnir virkir áður en tær snertu undirlag í fallhoppinu. Marktækur kynjamunur sást á byrjunarvirkni í miðlægum víðfaðma (m. vastus medialis) (p = 0,02) og hliðlægum víðfaðma (p = 0,03), þar sem stelpurnar voru fyrri til að virkja vöðvana. Marktækur munur sást á milli hægri og vinstri í hálfsinungsvöðva(p = 0,01) og miðþjóvöðva (p = 0,04) þar sem vinstri hliðin virkjaðist á undan. Stelpurnar höfðu marktækt hærri hlutfallslega rót meðaltalskvaðrats við að bremsa í lendingu eftir að þær stukku niður af pallinum, en strákarnir sýndu marktækt hærri hlutfallslega rót meðaltalskvaðrats eftir að dýpstu stöðu var náð, þ.e. á leið upp í uppstökkinu af gólfinu.

Samþykkt: 
  • 12.6.2012
URI: 
  • http://hdl.handle.net/1946/12110


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
HelenaMagnúsdóttir_ritgerð.pdf1,27 MBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna
HelenaMagnúsdóttir_fylgiskjöl.pdf6,1 MBOpinnViðaukiPDFSkoða/Opna