Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/12262
Þessi ritgerð fjallar um TEACCH kennsluaðferðina og einhverf börn. Rannsóknarspurningin sem lagt var upp með er: Hvernig er hægt að vinna með TEACCH kennsluaðferðina fyrir einhverf börn í leikskólum. Markmiðið með þessari ritgerð er að gera efnið aðgengilegt fyrir kennara og foreldra barna sem fengið hafa greininguna einhverfa. Á einföldu máli og hnitmiðað hefur höfundur komið saman nokkurs konar „handbók“ til handa þeim er koma að TEACCH kennslu með einhverfu barni í leikskóla. Í byrjun ritgerðarinnar er fjallað um lög og reglugerðir er varða málefni fatlaðs fólks, reglur um leikskóla og réttindi barna, en einhverf börn „flokkast“ sem fatlaðir einstaklingar. Þetta er gert til að sýna fram á að aðstoð við einhverfa í leikskólum er ekki byggð á „góðmennsku“ heldur ber skólum skylda að sinna þeim á þeirra forsendum. Næst er farið yfir sögu einhverfunnar í stuttu máli og hvernig þau börn sem fengið hafa greininguna „einhverfa“ geta sem best lært. Þá er sagt frá hugmyndafræðinni á bak við TEACCH kennsluaðferðina og hvernig hún nýtist leikskólakennurum og foreldrum einhverfra barna bæði í skóla og heima fyrir. Höfundur leggur áherslu á mikilvægi samstarfs heimilis og skóla og bendir á hvers virði það er einhverfa barninu að samvinna milli þessara stóru þátta í lífi þess, sé góð. Lauslega er bent á að áríðandi er fyrir sjúkra- og/eða iðjuþjálfa að vera hluti af þessu góða samstarfi foreldra og starfsfólks skólanna og mynda teymi um hag barnsins. Þá er gerð grein fyrir mikilvægi sjónrænna vísbendinga með einhverfum börnum, hvernig best sé að nálgast þau með dag- og vikuskipulagi og hvernig einstaklingsnámskrá er þeim nauðsynleg í námi. Höfundur bendir á leiðir til þess að nálgast myndefni við hæfi og farið er í gegnum þau verkefni sem henta best fyrir einhverf börn og hvernig auðveldast og ódýrast er að framkvæma vinnuna við að búa til skipulag. Einnig kemur fram hvað má nota af efnivið sem til er í leikskóla eða á heimili barnsins í verkefnavinnuna. Sýndar eru myndir með raunverulegum verkefnum og komið fram með hugmyndir að vinnuferli með barninu til að sýna fram á hve mikilvægt og í raun ábatasamt er að notast við TEACCH kennsluaðferðina í vinnu með einhverf börn í leikskóla.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
B.Ed. í heild PDF.pdf | 969,31 kB | Opinn | Lokaverkefni í heild | Skoða/Opna |