Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/12314
Persónuleiki einstaklings hefur mikið að segja um það hvort að hann stundi fyrirtækjarekstur eður ei. Ómögulegt er að finna hinn eina sanna persónuleika sem skilar sér í farsælum fyrirtækjaeiganda en þrátt fyrir það bendir margt til þess að til séu sameiginlegir eiginleikar á meðal allra þeirra sem hætta sér út í fyrirtækjarekstur. Lítið er þó vitað um það hvort að persónuleiki hafi áhrif á viljann til þess að eignast fyrirtæki eða hvort viljinn leiði endilega til nýsköpunar. Markmið þessarar rannsóknar var að komast að því hvort að munur sé á persónueiginleikum þeirra sem hafa áhuga á því að eignast fyrirtæki og þeirra sem hafa ekki áhuga á því. Sérstaklega var athugað hvort að munur væri á áhættusækni og kerfishugsun þessara hópa. Getan til þess að koma auga á þessa eiginleika ber með sér ótvírætt hagnýtt gildi fyrir viðskiptalífið og fræðasamfélagið, því hún felur það í sér að hægt sé að þekkja mögulega frumkvöðla fyrr og með meiri nákvæmni.
Rannsóknin var megindleg og niðurstöður hennar byggjast á svörum við spurningalista sem sendur var til 684 einstaklinga með tölvupósti og samskiptamiðlum. Spurningalistinn byggðist á sjálfsprófi Durham háskóla og var ætlað að meta persónuleika viðfangsefnisins á móti áhuganum fyrir fyrirtækjarekstri.
Niðurstöður staðfesta að þeir sem búa yfir meiri áhættusækni eru líklegri til þess að hafa áhuga á því að stofna fyrirtæki. Þar sem slíkir einstaklingar eru fyrsti vísirinn að því að nýsköpunarstarfsemi geti þrifist eru góðar líkur á því að áhættusækni sé einn af grunneiginleikum frumkvöðla. Þetta er í samræmi við fyrri rannsóknir sem hafa gefið slíkt til kynna. Tengslin á milli viljans til þess að eignast fyrirtæki og kerfishugsunar eru nokkuð flóknari en tengslin við áhættusækni, enda er um að ræða mun flóknara hugtak sem tekur til margra þátta í persónuleika einstaklinga en niðurstöður leiddu í ljós að ekki eru tengsl á milli þess að búa yfir kerfishugsun og þess að hafa áhuga á fyrirtækjarekstri.
Aðrar niðurstöður voru þær að munur var á viðhorfi kynjanna til áhættu, þar sem karlmenn eru áhættusæknari en konur sem er í samræmi við fyrri rannsóknir. Þá var ekki munur á kerfishugsun kynjanna.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
Áhættusækni og kerfishugsun - Persónueinkenni frumkvöðla B.Sc. Ritgerð.pdf | 648,42 kB | Opinn | Meginmál | Skoða/Opna |