Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/12361
Tilgangur þessarar rannsóknar var að draga upp heildarmynd af þróun stafaþekkingar, umskráningarhæfni og lesskilnings íslenskra barna frá fjögra til átta ára aldurs. Fylgst var með tveimur hópum 111 barna um þriggja ára skeið en þau voru fjögra og sex ára við upphaf rannsóknarinnar. Greinin er í beinu framhaldi af fyrri umfjöllun (Freyja Birgisdóttir, 2010) þar sem athyglinni var beint að þróun læsis fyrstu tvö ár verkefnisins. Í greininni verður fjallað um niðurstöður fyrir öll þrjú ár gagnasöfnunarinnar og leitast við að draga upp nákvæma heildarmynd af því hvernig íslensk börn ná tökum á grunnþáttum læsis á því tímabili sem rannsóknin í heild sinni spannar. Helstu niðurstöður voru þær að stafaþekking yngri aldurs-hópsins var komin vel á veg áður en formleg lestrarkennsla hófst. Færni eldri hópsins í umskráningu og lesskilningi jókst marktækt á milli fyrsta, annars og þriðja bekkjar, þó heldur hægðist á framförum eftir því sem leið á skólagönguna. Einstaklingsmunur var mikill öll árin en um það bil tveimur árum munaði á lestrarfærni þeirra barna sem stóðu verst að vígi í lestri og þeirra sem stóðu sig best. Þessar niðurstöður undirstrika nauðsyn þess að fylgjast vel með þeim börnum sem eiga í erfiðleikum með lestur strax í fyrsta bekk.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
freyja.pdf | 429,87 kB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna |