en English is Íslenska

Thesis (Bachelor's)

University of Iceland > Menntavísindasvið > B.A./B.Ed./B.S. verkefni - Menntavísindasvið >

Please use this identifier to cite or link to this item: http://hdl.handle.net/1946/12572

Title: 
 • Title is in Icelandic TEACCH í daglegu lífi einhverfra leikskólabarna
Degree: 
 • Bachelor's
Abstract: 
 • Abstract is in Icelandic

  Það var fyrir um tveimur árum sem ég fékk innblástur að þessu verkefni, en þá var óskað eftir því að ég tæki að mér að styðja einhverfan dreng í leikskóla. Fyrirhugað var að styðjast við TEACCH-aðferð í vinnu með honum, sem er önnur tveggja aðferða er helst hafa verið nýttar í skólastarfi með einhverfum börnum á Íslandi (Umsjónarfélag einhverfra, 2011). Drengurinn var fyrsta einhverfa barnið sem ég vann með og var þekking mín á slíku starfi engin þegar þar var komið við sögu. Það tók mig ekki langan tíma að uppgötva að hér var ég búin að finna viðfangsefni sem ég fann mikla þörf fyrir að kynna mér nánar. Ég hef á þessum tveimur árum viðað að mér þekkingu og fræðslu um skipulagða kennslu úr ýmsum áttum.
  Í nýútkominni Aðalnámskrá leikskóla (2011, bls. 23) er fjallað um rétt allra barna til menntunar og er þar minnst á að leikskólinn eigi að starfa eins og fjölbreytt samfélag þar sem öll börn eru virt að verðleikum og mikilvægi þess að komið sé til móts við þarfir allra barna tíundað. Til að standa undir þessum kröfum er mikilvægt að skólarnir vandi til verka svo að börn sem tilheyra minnihlutahópum fái jafna námsmöguleika á við aðra. Einhverf börn eru hér engin undantekning en til eru mismunandi aðferðir sem auðvelda börnum með sérþarfir að stunda nám í almennum skólum. Mun ég leitast við að að gera völdum þáttum TEACCH-aðferðarinnar sem best skil í skrifum mínum.
  Það sem aðskilur einhverf börn einna helst frá börnum sem ekki eru einhverf eru hinir félagslegu þröskuldar einhverfunnar sem gera það að verkum að einhverf börn á leikskólaaldri eiga í miklum erfiðleikum með að komast inn í leik með öðrum börnum. Virðist vandinn liggja í takmörkuðum skilningi einhverfra barna á félagslegum samskiptum og tengslum. Nýlegar rannsóknir sýna að vanda þarf sérstaklega stuðning við tengslamyndun einhverfra barna og leitast við að stuðla að jafnvægi í líðan barnsins.(Svanhildur Svavarsdóttir, 2004, bls. 48‒49).
  TEACCH er heildræn aðferð sem er ætlað að styðja einhverf börn, allt frá greiningu til íhlutunar. Stór hluti aðferðarinnar byggir á sjónrænum vísbendingum en slíkar vísbendingar geta verið í formi alls kyns merkinga á hlutum, herbergjum og öðru sem tengist umhverfi barnsins. Hluti stuðningsins er í formi þess að útbúa sérstök verkefni fyrir barnið þar sem reynt er að byggja ofan á þá getu sem til staðar er og styrkja þannig barnið á jákvæðan hátt.
  Kveikju að verkefnunum í verkefnabókinni, sem fylgir þessari greinargerð, hef ég fengið víðs vegar að, ýmist í gegnum teymisvinnu með sérfræðingum, af námskeiðum, veraldarvefnum og upp úr bókum. Verkefnabókin er hugsuð sem aðstoð fyrir þá sem koma að vinnu með einhverfum börnum. Í ljósi þess var það mér ekki síður mikilvægt að gerð verkefnanna væri sem einföldust þannig að bókin myndi nýtast sem best þeim breiða hópi fólks sem kemur að slíku starfi. Í verkefnabókinni eru fjölbreyttar hugmyndir að verkefnum sem hinn fullorðni getur í fyrstu æft með barninu. Barnið getur síðan í framhaldi æft færnina til fullnustu í einstaklingsvinnu en því næst er í flestum tilfellum hægt að útfæra verkefnið sem samvinnuverkefni með öðrum börnum. Barninu er þannig gert kleift að spreyta sig á ákveðinni færni og þegar henni hefur verið náð að fullu stendur barnið sterkar að vígi þegar í samvinnuna er komið og þekkir viðfangsefni verkefnisins/leiksins vel af fyrri reynslu.
  Í verkefnabókinni er einnig að finna ábendingar þar sem gefin eru dæmi um hvernig nota má TEACCH-aðferðina til að auðvelda barninu yfirsýn yfir umhverfið, en það var einmitt sá þáttur sem vakti hrifningu mína í upphafi þessa ferðalags míns.
  Í greinargerðinni er fjallað fræðilega um einhverfu; einkenni, og meðferðarúrræði. Jafnframt verður sagt frá sögu TEACCH-aðferðarinnar og fjallað um hvernig nýta má aðferðina til að efla boðskiptafærni barnsins og til að auðvelda leið einhverfra barna inn í daglegar athafnir samferðafólks.

Description: 
 • Description is in Icelandic Greinargerð með kennsluefni
Accepted: 
 • Jul 10, 2012
URI: 
 • http://hdl.handle.net/1946/12572


Files in This Item:
Filename Size VisibilityDescriptionFormat 
Greinargerð loka pdf.pdf397.44 kBOpenGreinargerðPDFView/Open