Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/1262
Lykilorð: Mysa, mysuafurðir, 35% mysuprótein, framleiðslutækni og arðsemi.
Markmið þessa verkefnis er að kanna helstu framleiðsluaðferðir fyrir mysuafurðir og einnig markaðslegar aðstæður ásamt því sem arðsemi framleiðslu á 35% mysupróteini er könnuð. Verkefnið miðar við þær aðstæður sem eru fyrir hendi hjá Norðurmjólk ehf. á Akureyri.
Árlega falla til um 145 milljónir tonna af mysu í heiminum. Hér á landi er mysa ekki nýtt til framleiðslu á mysuafurðum og er markaður fyrir mysuafurðir lítill á Íslandi. Erlendis er mysa nýtt til framleiðslu á verðmeiri afurðum eins og mysudufti, mysupróteini og mjólkursykri. Þessar afurðir eru notaðar í margs konar tilgangi aðallega til efnabætingar í önnur matvæli eða til framleiðslu á sérstökum vörum eins og próteindrykkjum.
Últrasíun og úðaþurrkun eru algengar framleiðsluaðferðir fyrir mysuprótein, verkefnið byggir á notkun þessara aðferða.
Árið 2001 var heimsframleiðsla á 35-60% mysupróteini 245.000-255.000 tonn. Heimsmarkaður fyrir 35-60% mysuprótein er talin vera 392-408 milljónir USD að stærð og er heimsmarkaðsverð fyrir 35% mysuprótein 1,4–1,8 USD/kg., í verkefninu er miðað við að verðið sé 1,6 USD/kg. eða um 118 IKR/kg. Markaður fyrir 35% mysuprótein er talin munu vaxa um allt að 37% á árunum 2002-2005.
Eftir að fullum afköstum er náð er velta rekstursins 48.106.309 IKR og framlegð fyrir afskriftir og fjármagnsliði er 11.456.041IKR sem er 23,8% af veltu. Á fyrsta ári er tap af rekstrinum uppá 21.088.441 IKR. Á ári 7 er gert ráð fyrir að reksturinn muni byrja að skila hagnaði, en þá er hagnaðurinn eftir skatta 1.193.953 IKR.
Núvirt sjóðstreymi veltufjár miðað við 10,9% ávöxtunarkröfu er jákvætt um 31.927.349 IKR en að teknu tilliti til fjárfestinga uppá 143.818.600 IKR er núvirt sjóðstreymi verkefnisins neikvætt um 83.127.349 IKR og eru innri vextirnir -9%.
Fjárfestingaþörf þarf að lækka um 57,8% eða í 60.691.069 IKR til þess að núvirt sjóðstreymi fyrir 10 ára tímabil standi undir 17,5% ávöxtunarkröfu á 40% eigið fé.
Framleiðslukostnaður fyrir 35% mysuprótein er 89,98 IKR/kg. afurð og er afurðaverð 118 IKR/kg. Annar fastur kostnaður, launakostnaður og samanlagður orkukostnaður vega þar þyngst. Annar fastur kostnaður þarf að hækka um 84,1% eða í 61,6 IKR/kg. að öðrum þáttum óbreyttum ef framleiðslukostnaður á að ná afurðaverði.
Niðurstaða verkefnisins er að framleiðsla 35% mysupróteins sé ekki arðbær
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
mysuafurdir.pdf | 1,16 MB | Takmarkaður | Mysu - heild | ||
mysuafurdir_e.pdf | 136,36 kB | Opinn | Mysu - efnisyfirlit | Skoða/Opna | |
mysuafurdir_h.pdf | 138,86 kB | Opinn | Mysu - heimildaskrá | Skoða/Opna | |
mysuafurdir_u.pdf | 107,46 kB | Opinn | Mysu - útdráttur | Skoða/Opna |