en English is Íslenska

Thesis University of Iceland > Félagsvísindasvið > B.A./B.Ed./B.S. verkefni - Félagsvísindasvið >

Please use this identifier to cite or link to this item: http://hdl.handle.net/1946/12735

Title: 
 • is Sérfræðiábyrgð lögmanna
Submitted: 
 • October 2012
Abstract: 
 • is

  Í þessari ritgerð verður fjallað um skaðabótaábyrgð lögmanna á grundvelli sjónarmiða um sérfræðiábyrgð. Það eru nokkur atriði sem þurfa að vera til staðar til þess að skaðabótaskylda geti almennt stofnast fyrir þann sem veldur tjóni. Um þessi skilyrði er fjallað um í byrjun ritgerðarinnar og miðast sú umfjöllun við almenna skaðabótaábyrgð. Þar kemur m.a. fram að maður þurfi að hafa valdið öðrum tjóni með saknæmum og ólögmætum hætti til þess að bótaskylda skapist. Farið er síðan yfir hvernig mat á saknæmi fer fram og hvað er þá yfirleitt lagt til grundvallar því mati.
  Í þriðja kafla er farið yfir hvað felst í sérfræðiábyrgð og hvernig hún er frábrugðin almennri ábyrgð. Í raun er sérfræðiábyrgðin strangt afbrigði af sakarreglunni sem fjallað er um í kaflanum um almenna ábyrgð. Það felur í sér að yfirleitt eru hlutverk og vinna sérfræðinga vel afmörkuð í lögum og reglum. Krafa er því gerð á sérfræðinga að þeir sýni vandvirkni og aðgæslu við störf sín. Þannig að ef að tjón á sér stað af þeirra völdum er afar líklegt að ekki hafi verið farið eftir þeim reglum sem gilda og eru sérfræðingar þá taldir eiga að bera ábyrgðina á tjóninu. Einnig hefur það áhrif á sakarmatið að sérfræðingar eiga að vera sérfróðir og vel menntaðir á sínu sviði og því er hægt að gera meiri kröfur um að þeir sjái fyrir afleiðingar háttsemi sinnar. Þar með er líklegt að um saknæma háttsemi sé að ræða ef sýnt er fram á að sérfræðingar hafi valdið tjóni. Einnig er farið yfir hvernig sönnun er hagað í málum sem sérfræðingar koma að. Þar er farið er yfir þær sönnunarreglur sem talið er að séu til staðar þegar sérfræðiábyrgð er til skoðunar. Farið er yfir hvort að vægari kröfur eru gerðar til tjónþola varðandi það að sýna fram á bótaábyrgð sérfræðingsins heldur en kröfurnar eru almennt. Það geta verið aðstæður fyrir hendi sem gera það að verkum að vægari kröfur eru gerðar til tjónþola, en farið er yfir dóma Hæstaréttar og álit fræðimanna í tengslum við þetta álitaefni.
  Í fjórða kafla ritgerðarinnar er fjallað um helstu einkenni sérfræðinga, lögmanna sem sérfræðinga og ábyrgð þeirra út frá sérfræðiábyrgð. Skilgreining á hugtakinu lögmaður kemur fram í lögum um lögmenn nr. 77/1998 og er farið eftir þeirri skilgreiningu í þessari ritgerð. Til þess að sýna fram á mikilvægi starfa lögmanna í samfélaginu, er farið stuttlega yfir sögu lögmanna sem stéttar og þær helstu breytingar sem hafa átt sér stað í þeirra starfsumhverfi. Í lok kaflans er farið yfir helstu almennu reglur sem gilda um lögmenn, en þær koma m.a. fram í lögum um lögmenn nr. 77/1998 og siðareglum lögmanna sem nefnast Codex Ethicus. Auk þessara meginreglna sem þarna koma fram verða lögmenn auðvitað að líta til annarra laga sem eiga við hverju sinni. Það er samt hægt að segja að meginmarkmið þessara reglna er að lögmenn sinni störfum sínum vel og sýni fagmennsku í starfi.
  Í lokakafla ritgerðarinnar er störfum lögmanna skipt í þrjá hluta: málflutningsstörf, ráðgjafastörf og ýmis framkvæmdarstörf. Farið verður yfir ábyrgð lögmanna í hverjum hluta út frá dómum Hæstaréttar og skrifum fræðimanna um þetta efni.
  Markmið ritgerðarinnar er að skoða hvernig einkenni sérfræðiábyrgðar eigi við lögmenn. Hvort að tjónþola er gert auðveldara að sækja bætur þegar sérfræðingur hefur valdið tjóni heldur en þegar almennar reglur skaðabótaréttar eiga við. Að lokum er til skoðunar hvort að mismunandi kröfur eru gerðar til lögmanna eftir því hvaða verkefni þeir sinna þá stundina, þá út frá þeirri flokkun starfa lögmanna sem kemur fram í lokakafla ritgerðarinnar.

Accepted: 
 • Aug 15, 2012
URI: 
 • http://hdl.handle.net/1946/12735


Files in This Item:
Filename Size VisibilityDescriptionFormat 
Emil Sigurðsson.pdf332.38 kBOpenHeildartextiPDFView/Open