is Íslenska en English

Lokaverkefni (Meistara)

Háskóli Íslands > Félagsvísindasvið > Meistaraprófsritgerðir - Félagsvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/12775

Titill: 
 • Innleiðing arðsemislíkansins "TERESA". Þjóðhagsleg arðsemi samgönguframkvæmda
Námsstig: 
 • Meistara
Leiðbeinandi: 
Útdráttur: 
 • Opinberar stofnanir á Norðurlöndum beita kerfisbundið kostnaðar-/ábatagreiningu við að meta arðsemi og forgangsraða samgönguverkefnum. Forgangsröðunin á sér bæði stað milli mismunandi málaflokka/ferðamáta og innan tiltekins málaflokks. Mikill uppsafnaður mannauður og rannsóknarvinna eru fyrir hendi á sviði samgönguhagfræði á Norðurlöndum. Í Danmörku og Noregi t.d. eru starfræktar sértækar hagrænar rannsóknarstofnanir í samgöngumálum sem gera það auðveldara viðfangsefni en ella að innleiða aðferðafræði á Íslandi á grundvelli arðsemissjónarmiða.
  Danska samgönguráðuneytið hefur um árabil staðið fyrir þróun og innleiðslu arðsemislíkans sem byggt er á félagshagfræðilegum grunni og aðferðarfræði kostnaðar-/ábatagreiningar (hér eftir nefnt k-/á); „TERESA“ (d.Transport- og Energiministeriets Regnearksmodel for Samfundsøkonomisk Analyse), til að forgangsraða samgöngufjárfestingum. Forritið er skrifað í Microsoft Excel og er að grunni til mjög aðgengilegt, einfalt og opið.
  Markmið k-/á í samgöngum er að bera kennsl á efnahagsleg áhrif fjárfestingar og að reikna ábata- og kostnaðarliði verkefna til að unnt sé að meta hugsanlega hagræðingu/tap sem kemur í hlut samfélagsins vegna fyrirhugaðrar fjárfestingar. Þættir þeir sem koma til þegar teknar eru ákvarðanir um fjárfestingar í vegasamgöngum eru: Kostnaður vegna mannvirkis og samhangandi fjárfestinga, hrakvirði, rekstrar- og viðhaldskostnaður mannvirkja, ábati og rekstrarkostnaður notenda og velferðarkostnaður skattlagningar ásamt ytri kostnaði samfélagsins vegna umhverfisáhrifa og slysa. Allir þessir þættir eru reiknaðir á nettóformi, þ.e. sem breyting miðað við fyrra ástand.
  Á undanförnum árum hefur átt sér stað endurskoðun á meðferð skatta í k-/á greiningu. Endurskoðunin felst í breytingu frá uppgjöri kostnaðar í þáttaverði, þ.e. verðmæti framleiðsluþátta án skatta, yfir í markaðsverð, eða verð með skattlagningu. Til að gæta þess að samræmi sé í arðsemisútreikningum er nauðsynlegt að meðhöndla allan kostnað sem borinn er af hinu opinbera; stofnkostnað, rekstrarkostnað o.fl., m.t.t. skattlagningar og færa til markaðsverðs, þar sem fleygur er milli þess verðs er hið opinbera greiðir annars vegar og neytendur hins vegar. Ábati og útgjöld til fjárfestingar eru þannig reiknuð út frá greiðsluvilja neytenda og gerð upp frá sjónarhóli þeirra í markaðsverði. Við umreikning frá þáttaverði í markaðsverð er meðaltalshlutfalli óbeinna skatta beitt; mVSK. Samkvæmni milli verðlags ávinnings og útgjalda verkefna í k-/á greiningu við arðsemismat samgönguverkefna er aðferð sem ekki hefur verið áður beitt hér á landi. Tekjur af samgönguverkefni, sem og útgjöld sem hafa áhrif á fjárstöðu ríkisins eru jafnframt meðhöndlaðar með tilliti til umframbyrði/jaðarbyrði skattlagningar sem bætist ofan á útgjöld og tekjur hins opinbera. Umframbyrðin endurspeglar dulinn kostnað sem samfélagið ber vegna opinberrar fjármögnunar á fjárfestingum í innviðum. Ábati og útgjöld til fjárfestingar eru þannig meðhöndluð með tilliti til skattlagningar, mVSK, annars vegar og umframbyrði skattlagningar hins vegar.
  Gagnaaðföng TERESA þarfnast ákveðinnar formumgjörðar m.t.t. ábata notenda af samgöngubót. Áhugavert er að hvernig gögnin eru yfirfærð á form þetta og er sú aðferðarfræði reifuð ítarlega í textanum. Yfirfærsla gagna á nettóform tekur til umferðargagna í tíma og fjarlægð og er nauðsynleg ábataútreikningum í forritinu vegna tíma- og fjarlægðarsparnaðar sem og breytinga í ytri áhrifum.

  Þörf er á meta einingaverð fjarlægðar, p, og tíma, w, á Íslandi til að unnt sé að meta á ábata- og kostnaðarliði. Einingaverðið felst í eftirfarandi stærðum: Tímavirði einkabíla, aksturskostnaður einkabíla, aksturskostnaður sendibíla, aksturskostnaður flutningabíla og kostnaður vegna ytri áhrifa. Ytri áhrifaþættir felast í slysakostnaði og kostnaði vegna ýmissa umhverfisáhrifa. Sumir þættir eru greindir ítarlega, líkt og tímavirði, en tímavirði er aðgreint í tímavirði innan vinnutíma, í frítíma og á leið til vinnu. Tímavirðið er enn fremur aðgreint í tímavirði notenda við akstur við eðlilegt umferðarflæði sem og við umferðartafir. Við kvörðun einingaverðs er ýmsum aðferðum beitt, í sumum tilfellum eru dönsk gildi úr „Transportøkonomiske Enhedspriser“ umreiknuð í ISK, meðan önnur gildi þarfnast ítarlegri greiningar.
  Vegagerðin, sem jafnan hefur verið öflugur verkkaupi, hefur dregið verulega saman seglin síðan á haustdögum 2008. Því til staðfestingar má nefna að úthlutun framkvæmdafjár til samgöngumála hefur skroppið saman um 78% frá hruni. Miklar umræður hafa spunnist að undanförnu um framgang Vaðlaheiðarganga á Norðurlandi en áhöld eru um að verkefnið standist kröfur um ásættanlega þjóðhagslega arðsemi.
  Líkanið reiknar nettónúvirði framkvæmdarinnar sem - 4.283 milljónir króna eða þjóðhagslegt tap á verðlagi ársins 2012.
  Monte Carlo hermun reiknar nettónúvirði í 85% tilfella neikvætt, 90% hlutfallsmörk í hermuninni eru 774 m.kr. hagnaður og miðgildið (50% hlutfallsmörk) 4.316 m.kr tap.

Samþykkt: 
 • 31.8.2012
URI: 
 • http://hdl.handle.net/1946/12775


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
TERESA.pdf1.23 MBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna