Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/1278
Undanfarin ár hefur verið unnið að því á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri (FSA) að skrá hjúkrunarmeðferðir samkvæmt NIC flokkunarkerfinu. Það er mikilvægur undirbúningur fyrir innleiðingu rafrænnar sjúkraskrár. Megintilgangur rannsóknarinnar var að kanna hvaða NIC hjúkrunarmeðferðir hjúkrunarfræðingarnir á FSA nota og hvernig notkun NIC meðferða skiptist eftir sérsviðum.
Þýði rannsóknarinnar voru allir hjúkrunarfræðingar sem starfa í klínískri hjúkrun á FSA (n=190). Úrtakið samanstóð af öllum þeim hjúkrunarfræðingum (n=162) sem voru að störfum við klíníska hjúkrun á meðan gagnasöfnun fór fram, í mars 2004. Svarhlutfall reyndist vera 39,5% (n=62). Á spurningalistanum sem notaður var við rannsóknina voru 480 hjúkrunarmeðferðir. Listinn heitir á upprunalega málinu Nursing Intervention Classification (NIC) Use Survey og var þróaður af Iowa Intervention Project Team (1996). Vinnuhópur um skráningu hjúkrunar á vegum Landlæknisembættisins stóð að þýðingu spurningalistans með leyfi höfundar og kallast hann nú spurningalisti um Nursing Intervention Classification (NIC).
Niðurstöður rannsóknarinnar leiddu í ljós að hjúkrunarfræðingar á FSA voru að nota 478 meðferðir af listanum. Að mati rannsakenda endurspegla niðurstöðurnar hjúkrun sérsviða sjúkrahússins. Aðeins tvær hjúkrunarmeðferðir voru aldrei framkvæmdar á FSA, Vökvagjöf í líknarbelg og Meðferð vegna tæknifrjóvgunar.
Rannsakendur telja að rannsóknin gefi mikilvæga innsýn í störf hjúkrunarfræðinga á FSA og geti stuðlað að markvissari skráningu á FSA og sem þróun rafrænnar sjúkraskrár. Niðurstöður rannsóknarinnar reyndust einnig mjög álíkar sambærilegri íslenskri rannsókn. Reyndust sjö af efstu tíu NIC meðferðunum vera þær sömu í báðum rannsóknum og þá voru níu af tíu algengustu meðferðunum að finna innan 20 efstu hjá báðum.
Rannsakendur telja einnig að samræmt mál í hjúkrun sé nauðsynlegt til að skilgreina hjúkrunarstörf og lýsa þeim. Án þess er engin leið til að meta hvaða hlut hjúkrun á í sjúkdóms- og bataferli skjólstæðinga og störf hjúkrunarfræðinga verða mun ósýnilegri og um leið minna metin.
Lykilhugtök: NIC - skráning hjúkrunar - rafræn sjúkraskrá - flokkunarkerfi - NANDA - NOC - fagmál í hjúkrun - samræmt mál í hjúkrun.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
nic.pdf | 1.4 MB | Opinn | NIC hjúkrunarmeðferðir - heild | Skoða/Opna | |
nic-fs1.pdf | 318.91 kB | Opinn | NIC hjúkrunarmeðferðir - fylgiskjal 1 | Skoða/Opna |