is Íslenska en English

Lokaverkefni (Meistara)

Háskóli Íslands > Félagsvísindasvið > Meistaraprófsritgerðir - Félagsvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/12815

Titill: 
  • Misnotkun á markaðsráðandi stöðu í formi verðþrýstings
Námsstig: 
  • Meistara
Útdráttur: 
  • Fyrirtæki er talið vera í markaðsráðandi stöðu þegar það hefur þann efnahagslega styrkleika að geta hindrað virka samkeppni á þeim markaði sem máli skiptir og það getur að verulegu leyti starfað án þess að taka tillit til keppinauta, viðskiptavina og neytenda, sbr. 4. tölul. 1. mgr. 4. gr. samkeppnislaga nr. 44/2005. Eitt meginviðfangsefni samkeppnislaga og samkeppnisyfirvalda er að bregðast við og koma í veg fyrir misnotkun á markaðsráðandi stöðu, enda er talið að slík háttsemi geti skaðað velferð neytenda, til að mynda með minnkun vöruframboðs og hækkun verðs. Verðþrýstingur er ein tegund af misnotkun á markaðsráðandi stöðu og er hann umfjöllunarefni þessarar ritgerðar. Verðþrýstingur felur í sér að markaðsráðandi fyrirtæki, sem starfar bæði á heildsölu- og smásölumarkaði og býr yfir mikilvægu heildsöluaðfangi fyrir keppinauta á smásölustigi, hagar verðlagningu sinni á heildsölu- og smásölustigi með þeim hætti að keppinautar þess á smásölustigi geta ekki jafnað verðlagningu hins ráðandi fyrirtækis og skilað nægilegum hagnaði til að geta starfað með arðsömum hætti til lengri tíma.
    Í þessari ritgerð er meginumfjölluninni beint að verðþrýstingi í evrópskum samkeppnisrétti (ESB-samkeppnisrétti), þ.e.a.s. sem brot á 102. gr. Lissabon-sáttmálans. Ástæðan fyrir því að ekki er lögð áhersla á umfjöllun um verðþrýsting í íslenskum samkeppnisrétti er sú að aðeins eitt mál hefur litið dagsins ljós þar sem hérlend samkeppnisyfirvöld hafa talið að brotið hafi verið gegn 11. gr. samkeppnislaga með verðþrýstingi og var sú ákvörðun Samkeppniseftirlitsins tekin árið 2012 og staðfest af áfrýjunarnefnd samkeppnismála sama ár. Utan þess er litla sem enga umfjöllun að finna um verðþrýsting hérlendis og í ljósi þess er eðlilegt að beina sjónum að verðþrýstingi í ESB-samkeppnisrétti þar sem nokkur slík mál hafa komið til kasta framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins og dómstóls Evrópusambandsins (e. The Court of Justice of the European Union). Þá hafa erlendir fræðimenn skrifað fjöldann allan af greinum um verðþrýsting í ESB-samkeppnisrétti. Þessi áhersla á ESB-samkeppnisrétti helgast einnig af því að bannákvæði 11. gr. samkeppnislaga um misnotkun á markaðsráðandi stöðu er sambærilegt 54. gr. EES samningsins og 102. gr. Lissabonsáttmálans og við túlkun ákvæðisins er höfð hliðsjón af 102. gr. TFEU og erlendri dómaframkvæmd og fræðiritum. Sjónum er þó beint að einhverju leyti að verðþrýstingi í Bandaríkjunum og á Íslandi og er umfjöllun um réttarstöðuna í Bandaríkjunum sérstaklega mikilvæg í því sambandi, enda réttarframkvæmdin um margt önnur þar en í ESB-samkeppnisrétti og önnur sjónarmið sem gilda varðandi verðþrýsting.
    Verðþrýstingur, sem misnotkun á markaðsráðandi stöðu, er umdeilt hugtak og eru skiptar skoðanir um réttmæti verðþrýstings sem sjálfstæðs brots, sem og um framkvæmd og aðferðafræði framkvæmdastjórnarinnar og Evrópudómstólsins í tengslum við brotið. Ásamt almennri umfjöllun um verðþrýsting, þar sem leitast er við að draga fram alla helstu þætti hans með tilliti til réttarframkvæmdar og fræðiskrifa, er því einnig fjallað í þessari ritgerð um andstæð sjónarmið og gagnrýni um verðþrýsting.

Samþykkt: 
  • 4.9.2012
URI: 
  • http://hdl.handle.net/1946/12815


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
Bjarki Birgisson_Meistararitgerd.pdf818.31 kBLokaður til...04.09.2042HeildartextiPDF