is Íslenska en English

Lokaverkefni (Meistara)

Háskóli Íslands > Félagsvísindasvið > Meistaraprófsritgerðir - Félagsvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/12840

Titill: 
  • Þagnarréttur fyrirtækja við meðferð samkeppnismála
  • Titill er á ensku Corporations´ Right Against Self-incrimination During Competition Proceedings
Námsstig: 
  • Meistara
Leiðbeinandi: 
Útdráttur: 
  • Rétturinn til þess að fella ekki á sig sök, einnig nefndur þagnarréttur, er ein af grundvallarreglum sakamálaréttarfars. Í réttinum felst ekki einungis réttur manns til þess að veita ekki munnlegar upplýsingar, heldur einnig réttur til þess að þurfa ekki að afhenda gögn eða ljá atbeina sinn að öðru leyti við rannsókn máls, sem getur fellt sök á mann. Í ritgerð þessari, sem ber heitið „Þagnarréttur fyrirtækja við meðferð samkeppnismála“, verður leitast við að gera grein fyrir þeirri réttarstöðu, sem ríkir um rétt fyrirtækja við meðferð samkeppnismála til að fella ekki á sig sök.
    Rétturinn til að fella ekki á sig sök er talinn felast í 6. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu, sem tryggir réttinn til réttlátrar málsmeðferðar, án þess að vera þar orðaður berum orðum. Sáttmálinn var lögfestur á Íslandi með lögum nr. 62/1992. Ákvæði 70. gr. stjórnarskrárinnar svarar efnislega til 6. gr. Mannréttindasáttmálans, sem hefur áhrif við mat á því hvort rétturinn telst einnig stjórnarskrárvarinn. Í ritgerðinni verður kannað hvort 6. gr. Mannréttinda-sáttmálans taki til málsmeðferðar samkeppnislagabrota, en samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sáttmálans gildir ákvæðið sé um ,,refsivert brot“ að ræða. Verður í því sambandi gert grein fyrir muninum á stjórnsýsluviðurlögum og refsingum, en stjórnsýsluviðurlög eru þau viðurlög, sem ákveðin eru af stjórnvöldum utan refsivörslukerfisins og er orðið notað sem hliðstæða við refsingu innan refsivörslukerfisins, en eðli þeirra og aðdragandi að ákvörðun um þau er ólíkur.
    Í ritgerðinni verður inntak réttarins til að fella ekki á sig sök jafnframt kannað og til hvaða gagna hann tekur, en gerður hefur verið greinarmunur á gögnum sem hafa sjálfstæða tilveru óháð vilja aðila og gögnum sem einungis eru til vegna framburðar aðila.
    Farið verður í gegnum dómaframkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu og ESB-dómstólsins hvað réttinn varðar og kannað hvort rétturinn, samkvæmt Mannréttindasáttmálanum annars vegar og samkvæmt ESB-rétti hins vegar, sé sá sami, en í öllum þeim málum sem Mannréttindadómstóllinn hefur dæmt í varðandi þagnarrétt hefur verið um að ræða einstaklinga, sem áttu mögulega yfir höfði sér fangelsisvist eða aðra refsingu.
    Þar sem viðfangsefni þessarar ritgerðar lýtur að því hvort fyrirtæki njóti réttarins til að fella ekki á sig sök, sem telst til grundvallarmannréttinda, verða rök að baki mannréttindavernd lögaðila könnuð. Jafnframt verður gert grein fyrir þeim rökum sem standa að baki réttinum til þess að fella ekki á sig sök. Verður í því sambandi kannað hvers konar réttindum réttinum var upphaflega ætlað að vernda og hvort það styðji þá niðurstöðu að fyrirtæki skuli njóta hans.
    Farið verður í gegnum réttarstöðu fyrirtækja til þess að fella ekki á sig sök í hinum ýmsu ríkjum og dómaframkvæmd þar könnuð. Verða Bandaríkin, Ástralía, Kanada og Bretland skoðuð í því sambandi og gert grein fyrir stöðu réttarins í samanburði við ESB-rétt. Því næst verður íslenskur réttur tekinn fyrir, en dómaframkvæmd hér á landi er afar fátækleg hvað réttinn varðar. Í ljósi þessa verður hinn nýfallni dómur Héraðsdóms Reykjavíkur í hinu svokallaða Olíusamráðsmáli skoðaður ítarlega, en þar reyndi meðal annars á rétt fyrirtækja til að fella ekki á sig sök.
    Í lok ritgerðarinnar verður reynt að spá fyrir um hver yrði líkleg niðurstaða Mannréttindadómstóls Evrópu ef kæmi til úrlausnar hans um rétt fyrirtækja til að fella ekki á sig sök. Verður kannað hvort fyrirtæki yrðu talin njóta verndar 6. gr. sáttmálans til að fella ekki á sig sök og ef svo væri hvort sá réttur væri sambærilegur við þann rétt sem Mannréttindadómstóllinn hefur veitt einstaklingum eða hvort hann yrði takmarkaðri. Verða forsendur dóma Mannréttindadómstólsins kannaðar með það markmið í huga og kannað hvort hægt sé að finna mögulegar vísbendingar um hvaða réttar fyrirtæki yrðu talin njóta.

Samþykkt: 
  • 5.9.2012
URI: 
  • http://hdl.handle.net/1946/12840


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
Guðný Hjaltadóttir.pdf896.03 kBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna