Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/12885
Þessi ritgerð er lögð fram til BA-prófs í almennum málvísindum á Hugvísindasviði Háskóla Íslands. Umfjöllunarefnið er innri breytileiki í fallmörkun frumlaga í íslensku, en færeyska er einnig höfð til hliðsjónar. Í fyrsta hluta ritgerðarinnar er fjallað um breytingarnar sem standa yfir í fallmörkun frumlaga í íslensku og færeysku. Farið er yfir nokkrar kenningar um upptök og útbreiðslu breytinganna og skoðaðar eru nokkrar rannsóknir sem gerðar hafa verið á seinustu áratugum. Þá er sérstaklega fjallað um svokallaðan innri breytileika sem fram hefur komið í rannsóknum. Þessi innri breytileiki lýsir sér í því að málhafar nota ekki alltaf sama frumlagsfall með sömu sögn, til dæmis sýna fyrri rannsóknir að til eru málhafar sem nota bæði þolfall og þágufall með langar og öðrum sögnum.
Í seinni hluta ritgerðarinnar er sagt frá rannsókn sem var framkvæmd til þess að afla gagna um þennan innri breytileika. Náttúrulegra gagna var aflað með leitum á netinu en tilraunagögn fengust með könnun sem 280 manns tóku þátt í. Með rannsókninni var vonast til þess að svara þeirri spurningu hvort innri breytileikinn væri algjörlega handahófskenndur eða hvort hægt væri að greina mynstur í dreifingu hans. Náttúrulegu gögnin voru skoðuð út frá þessum spurningum auk þess sem athugað var hvort munur væri á málhöfum og hvort hægt væri að skipta þeim í hópa eftir því hvernig innri breytileiki birtist í máli þeirra. Sagnirnar vanta, langa, klæja og svíða voru prófaðar og áhersla lögð á fornöfn sem frumlög. Þetta var gert til þess að geta borið saman frumlög eftir persónu og tölu.
Meginniðurstöður rannsóknarinnar eru þrenns konar. Í fyrsta lagi kemur greinilegt mynstur fram í dreifingu innri breytileikans þegar fornafn er notað sem frumlag. Þannig er ákveðinn skali til staðar þar sem hlutfall þágufallsafbrigða er minnst í fyrstu og annarri persónu eintölu en hæst í þriðju persónu fleirtölu, til dæmis er mun líklegra að málhafi segi mig langar og þeim langar en mér langar og þá/þau/þær langar. Í öðru lagi eru málhafar mjög ólíkir. Hægt er að skipta málhöfum í hópa eftir því hvort þeir hafa innri breytileika eða ekki í máli sínu. Auk þess er innri breytileikinn mismikill hjá þeim sem hafa hann. Að lokum virðist innri breytileikinn vera að hluta til handahófskenndur þrátt fyrir ofangreind mynstur. Hann er því ekki algjörlega fyrirsegjanlegur.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
BA-ritgerd.ienm.pdf | 1.44 MB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna |