Please use this identifier to cite or link to this item: https://hdl.handle.net/1946/1292
Tilgangur þessarar rannsóknar var að kanna viðhorf foreldra barna sem leggjast inn á Barnadeild Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri (FSA), til þjónustu deildarinnar. Í þessari rannsókn var notuð megindleg rannsóknaraðferð. Mælitækið var spurningalisti sem hafði verið forprófaður á Landspítala Háskólasjúkrahúsi fyrir Barnaspítala Hringsins og aðlagaður að rannsókn þessari með hjálp leiðbeinanda. Þýðið í rannsókninni voru foreldrar allra barna sem lögðust inn á Barnadeild FSA. Í þessari rannsókn var notast við þægindaúrtak þar sem þátttakendurnir voru foreldrar barna á aldrinum 0-18 ára sem lögðust inn á Barnadeild FSA á tímabilinu febrúar - mars 2006. Hjúkrunarfræðingar deildarinnar buðu foreldrum að svara spurningalistanum þegar komið var að útskrift barnsins. Markmiðið var að 30-40 spurningalistum yrði dreift til foreldra, af þeim voru 25 listar afhentir og svarhlutfall var 100%. Einnig bauðst þátttakendum að koma á framfæri skriflegum athugasemdum. Rannsóknir sýna fram á að spurningalistakannanir séu góð leið til að afla upplýsinga um viðhorf neytenda til þjónustunnar og að slíkar kannanir séu einnig mikilvægar fyrir hjúkrunarfræðinga þar sem þeir öðlast nýja þekkingu og betri innsýn í þarfir skjólstæðinga sinna. Niðurstöður rannsóknarinnar voru þær að almennt telja foreldrar þjónustu Barnadeildarinnar framúrskarandi eða mjög góða. Þó voru þátttakendur misánægðir með útskriftarferlið og fannst nokkrum foreldrum fræðsluþörf sinni ekki nægilega fullnægt. Einnig komu fram athugasemdir með fæðið á deildinni og virtist skorta upplýsingar um að foreldrar gætu pantað sér fæði.
Lykilhugtök: foreldrar; barnadeild; börn; ánægja