Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/12939
Ritgerð þessi fjallar um málþroska og máltöku CODA barna, en það eru heyrandi börn heyrnarlausra foreldra. CODA börn tilheyra bæði menningu og samfélagi heyrandi og heyrnarlausra og nota því bæði íslenskt talmál og íslenskt táknmál til að tjá sig. Þrátt fyrir það hafa þau ekki verið skilgreind tvítyngd af heyrandi samfélaginu. Samfélag heyrnarlausra og leikskólinn Sólborg í Reykjavík hafa ávallt litið á CODA börn sem tvítyngd. Skoðaðar voru tvær íslenskar rannsóknir við vinnslu þessarar ritgerðar en þær voru gerðar af Valdísi Jónsdóttur og Katrínu Einarsdóttur (2000) annarsvegar og Valdísi Jónsdóttur og Samskiptamiðstöð heyrnarlausra (2006-2009) hinsvegar. Niðurstöður þessara rannsókna sýndu að langflest þeirra CODA börn sem tóku þátt í rannsóknunum voru með seinkaðan málþroska ef borið er saman við jafnaldra þeirra. Börnin áttu erfitt með hlustun, athygli þeirra var skert og einbeiting og úthald lítið. Orðaforði þeirra var fátæklegur og þeim misheyrðist oft. Í síðari rannsókninni var einnig könnuð táknmálskunnátta þeirra og sýndu börnin einnig frávik í málþroska táknmáls. Því er hægt að segja að þau CODA börn sem tóku þátt í rannsókninni eigi ekkert heilt tungumál.
Leikskólinn Sólborg í Reykjavík hefur sýnt fram á að hugmyndafræði snemmtækrar íhlutunar eigi vel við CODA börn. Með málörvun á talmáli og táknmáli frá unga aldri er hægt að auka málþroska barnanna og hafa þannig áhrif á allan síðari málþroska barnsins. Ýmiskonar námsefni hefur verið gefið út með það markmið að efla málþroska barna en farið verður yfir það námsefni í þessari ritgerð. Ljóst er að mikilvægt er að fylgjast náið með málþróun CODA barna, leggja mat á málþroska þeirra sem fyrst og skipuleggja íhlutunarstundir við hæfi.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
LOKAeintak BA Prentun 02.05.2012.pdf | 346.55 kB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna | |
Forsíða BA.pdf | 31.4 kB | Opinn | Forsíða | Skoða/Opna |