Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/12947
Verkefnið fjallar um þróun búsetumála fatlaðs fólks hjá Akraneskaupstað og nágrennis er viðkemur yfirfærslu búsetumála frá ríki til sveitarfélaga. Fjallað er um hvaða raddir heyrast í stefnuþróun sveitarfélagsins í málaflokki fatlaðs fólks er viðkemur búsetu þeirra og þær væntingar sem mæður fatlaðra ungmenna hafa fyrir hönd barna sinna á framtíðarbúsetu á þjónustusvæðinu. Markmiðið með verkefni þessu, er í fyrsta lagi að kanna hverjar megináherslur sveitarfélagsins eru varðandi uppbyggingu á búsetuúrræðum og þjónustu við fatlað fólk á heimilum sinum. Í öðru lagi að kanna hvaða væntingar foreldrar fatlaðra ungmenna hafa varðandi búsetuform og þjónustu fyrir börnin sín í framtíðinni. Tvær rannsóknarspurningar voru settar fram því til stuðnings sem ætlunin er að leita svara við síðar í verkefninu. Í því ljósi var talað við fagfólk sveitarfélagsins sem hefur umsjón með málefnum fatlaðs fólks og þeirra sýn sett fram í sérkafla. Fjórar mæður tilvonandi þjónustuþega í búsetu fatlaðra í sveitarfélaginu tóku þátt í könnun sem unnin var, út frá eigindlegri aðferðafræði til að fá fram væntingar mæðranna um framtíðarbúsetu fyrir fötluð ungmenni sín.
Helstu niðurstöður benda til þess að einhver þróunarvinna sé í gangi í búsetumálum fatlaðs fólks hjá Akraneskaupstað. Niðurstöður benda einnig til þess að fagfólk innan stjórnsýslunnar þurfi að kynna sér betur nýjar áherslur í þjónustu við fatlað fólk og innihald samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, sem taka ber mið af í þjónustunni. Þær ákvarðanir sem teknar eru þarf að ígrunda vel, en ákvarðanirnar mótast meðal annars af því fjármagni sem veitt er í málaflokk fatlaðs fólks. Mæðurnar hafa keimlíkar skoðanir er viðkemur framtíð barna sinna, hvort sem átt er við áhyggjur eða tilhlökkunarefni. Fyrir sveitarfélagið er mikilvægt að raddir fatlaðs fólks og/eða foreldra þeirra heyrist um það hverjar væntingar þeirra og óskir um búsetu eru og að fatlað fólk hafi val um hvernig, hvar og með hverjum það vill búa.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
Lokaritgerð 4 maí.pdf | 505,67 kB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna |