Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/1308
Viðfangsefni þessarar ritgerðar er tengsl markvissrar tónlistarþjálfunar við framfarir í lestri og stærðfræði hjá börnum. Margvíslegum heimildum um erlendar rannsóknir á þessu sviði var safnað saman og er fjallað um þær í textanum.
Rannsókn var síðan gerð til að athuga hvort um tengsl væri að ræða milli framfara í lestri og/eða stærðfræði og markvissrar tónlistarþjálfunar í 2. til 3. bekk grunnskóla og þá hvers konar tengsl. Rannsóknin var byggð á nokkrum erlendum rannsóknum sem hafa sýnt fram á tengsl milli þessara þátta, en þær virðast benda til þess að tónlistarþjálfun hraði framförum í lestri og ákveðnum þáttum stærðfræðinnar, sérstaklega rýmis- og tímaskynjun (spatial- temporal reasoning) og hlutfallsreikningi.
Rannsóknarspurningin er því: Eru tengsl milli framfara í stærðfræði og/eða lestri og markvissrar tónlistarþjálfunar í 2. til 3. bekk grunnskóla og þá hvers konar tengsl? Með markvissri tónlistarþjálfun er átt við einn kennslutíma í hópi á viku þar sem hreyfing, taktæfingar, söngur og hlustun er lögð til grundvallar ásamt hálftíma einkatíma í píanóleik á viku en auk þess hlustuðu börn í meðferðarhóp á valda tónlist við heimanám og þegar þau gengu til náða. Rannsóknin fór fram í fjórum skólum í Kópavogi. Þar sem börn í nokkrum grunnskólum Kópavogs njóta forskólakennslu á vegum Tónlistarskóla Kópavogs í sínum skóla var meðferðarhópurinn valinn með slembiaðferð úr þessum skólum. Samanburðarhópurinn var valinn með slembiaðferð úr þeim grunnskólum Kópavogs sem ekki enn njóta kennslu forskóla tónlistarskólans en þau börn voru undanskilin sem þegar voru í tónlistarnámi annars staðar. Þau áttu kost á að taka þátt í meðferðarhópi. Lýðfræðileg dreifing var góð, þar sem menntun, tekjur og aðrir lýðfræðilegir þættir, svo sem fjárhagsleg staða, eru breytilegir innan þeirra hverfa sem um ræðir. Úrtakið ætti því að gefa skýra mynd af þýðinu. Þátttakendur í tilrauninni voru 80 talsins, þar af 40 í meðferðarhóp og 40 í samanburðarhóp. Brottfall var lítið úr hópunum meðan á tilrauninni stóð.
Börnin tóku öll stöðupróf í ákveðnum þáttum stærðfræðilegrar hugsunar, nánar tiltekið í þremur einstaklingsprófum úr Wechsler Intelligence Scale for Children,
3. útgáfu (WISC III). Þau voru myndaröðun, litafletir og hlutaröðun. Þau tóku einnig Læsispróf fyrir 2. bekk ásamt hraðlestrarprófum áður en meðferðin hófst og einnig við lok fimm mánaða tónlistarþjálfunar sem aðeins meðferðarhópurinn gekkst undir. Sú þjálfun fór fram í tveimur hlutum vegna nærri þriggja mánaða langs sumarfrís. Þá voru framfarir meðferðarhópsins bornar saman við framfarir samanburðarhópsins. Niðurstöður voru skoðaðar í SPSS með SPANOVA og t- prófum. Niðurstöður sýndu að ekki var marktækur munur á frammistöðu tónlistarhóps og samanburðarhóps. Rannsóknin fór fram á þeirri vorönn sem börnin voru í 2. bekk og haustönn 3. bekkjar. Vegna þessa gekk illa að halda ytri aðstæðum stöðugum meðan á tilrauninni stóð og voru áhrifabreytur til vandræða. Samanburðarhópurinn hóf bæði þátttöku í dansi og kórstarfi í upphafi 3. bekkjar, og á sama tíma missti tónlistarhópurinn úr tónlistarþjálfuninni vegna veikindaforfalla tónmenntakennara. Lítið fór fyrir heimaæfingum sumra barna á milli píanótímanna. Ef til vill er heppilegra að vinna rannsókn sem þessa á leikskóla þar sem auðveldara er að stjórna þeim breytum sem gætu haft áhrif á niðurstöðurnar. Ekki er útilokað að tengsl séu milli markvissrar tónlistarþjálfunar og framfara í námi þótt það hafi ekki komið fram í þessari rannsókn. Því verður hún vonandi sú fyrsta í röð fleiri rannsókna því ástæða er til að kanna betur hvort tengsl séu á milli markvissrar tónlistarþjálfunar og framfara í námi.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
Ásta Schram_heild.pdf | 602.58 kB | Opinn | Tónlistarþjálfun - heild | Skoða/Opna |