Please use this identifier to cite or link to this item: https://hdl.handle.net/1946/13124
Markmið þessarrar rannsóknar er að kanna hvernig þekkingarstarfsmenn upplifa hið óskrifaða vinnusamband sitt við vinnuveitendur sem innan mannauðsstjórnunar kallast sálfræðilegi samningurinn. Tilgangur hennar er einnig sá að athuga hvort að breyttar aðstæður á vinnumarkaði í kjölfar efnahagshrunsins árið 2008 hafi haft áhrif á upplifun þekkingarstarfsmanna af sálfræðilega samningnum. Rannsóknin er byggð á gögnum sem fengin voru með gerð eigindlegrar rannsóknar vorið 2012 þar sem tekin voru hálfopin viðtöl við átta þekkingarstarfsmenn frá jafnmörgum vinnustöðum. Helstu niðurstöður rannsóknarinnar eru þær að þekkingarstarfsmenn telja sig mjög sjálfstæða í starfi og að þeir búi við gott starfsöryggi. Þeir telja sig almennt vera holla vinnuveitendum sínum en hollustan er þó meiri gagnvart eigin sérþekkingu. Þekkingarstarfsmenn bera mikið traust til vinnuveitenda sinna og telja að það sé gagnkvæmt. Þekkingarstarfsmenn telja traust jafnframt vera mjög mikilvægan þátt í vinnusambandinu. Traust til vinnuveitenda minnkaði þó tímabundið hjá um helmingi viðmælenda í kjölfar efnahagshrunsins en hefur síðan aukist aftur. Niðurstöður rannsóknarinnar benda einnig til þess að heildarupplifun þekkingarstarfsmanna af sálfræðilega samningnum hafi breyst eftir því hjá hvers konar skipulagsheild þekkingarstarfsmennirnir vinna. Vísbendingar eru um að upplifun þekkingarstarfsmanna sem vinna hjá skipulagsheildum þar sem niðurskurður, skipulagsbreytingar eða einhvers konar samdráttur hefur átt sér stað sé í stórum dráttum neikvæðari en hjá öðrum þekkingarstarfsmönnum. Sex af átta þekkingarstarfsmönnum töldu að þeir myndu hugsanlega íhuga það að flytjast til útlanda ef þeir fengju spennandi starfstilboð en tveir þátttakendur voru nú þegar að skoða starfsmöguleika sína utan landsteinanna. Niðurstöður rannsóknarinnar undirstrika það að vinnuveitendur þurfa að vera vakandi gagnvart hinu óskrifaða vinnusambandi við þekkingarstarfsmenn ef viðhalda á trausti og hollustu, ekki síst þegar starfsumhverfið einkennist af óvissu og breytingum.
Filename | Size | Visibility | Description | Format | |
---|---|---|---|---|---|
Lokaritgerð.pdf | 746.05 kB | Open | Heildartexti | View/Open |