Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/13145
Virðismat eiginfjárgjörninga er eilífðarspurning fjármálamarkaða heimsins, þar sem „rétt“ mat á virði gefur að jafnaði bestu ávöxtun sem næst, þó ekki alltaf. Margar tegundir virðismats eru til og mest notaða aðferðin er mat byggt á kennitölunum P/B og P/E. Markmið þessarar rannsóknar er að meta hvort flokkun kennitalnanna P/B og P/E í „Penman matrixu“ gefi vísbendingar um vænta rekstrarniðurstöðu félags og þ.a.l. mat á verði félagsins.
Helstu niðurstöður rannsóknarinnar eru þær að flest félög í úrtaki flokkast í reit A í Penman matrixunni við skráningu á verðbréfamarkað (IPO) en í lok rannsóknartímans flokkast 12,5% úrtaks í reit A. Að meðaltali tekur það félag um 22 mánuði að flytjast um reit eftir skráningu. Þá kom fram að flest félög hafa hærri ávöxtunarkröfu á eigið fé við skráningu á markað en meðaltal markaðarins. Með vísan í megin rannsóknarspurningu nr. 1 er því svarað neitandi að flokkun P/B og P/E samkvæmt Penman matrixu geti sagt til um vænta afkomu félags. Svar við megin rannsóknarspurningu nr. 2 þarfnast frekari rannsókna.
Ritgerðin skiptist í níu kafla. Í 1. kafla er farið yfir aðferðafræði rannsóknar. 2. kafli fjallar um sögulega þróun greiningar á fjárhagslegu virði og m.a. fjallað um verk Benjamin Graham á því sviði. Í 3. kafla er gerð grein fyrir kenningunni um skilvirkan markað og hvernig skilningur markaðsaðila er fyrir hegðun hans. Í 4. kafla er fjallað um ýmsar tegundir virðismats, greint á milli verðmats, verðs og virðismats og fjallað um helstu virðismatsaðferðir og gerð grein fyrir residual earnings. Í 5. kafla er greining á kennitölunum P/B og P/E og farið yfir forsendur þeirra, auk þess sem fjallað er um ýmsar myndir P/E kennitölunnar og fjallað um vöxt félaga. 6. kafli fjallar um flokkun á kennitölunum P/B og P/E og farið yfir fræðilegan bakgrunn „Penman matrixunnar“ og hvernig matrixan nýtist við skoðun á félögum. Í 7. kafla er rannsóknarspurning sett fram ásamt níu undirspurningum. Þá er lýst og framkvæmd rannsókn á átta félögum skráðum á verðbréfamarkaðnum NASDAQ OMX Nordic aðalmarkað á árunum 2006-2010. Framkvæmd er „Penman matrixu“ flokkun og farið yfir niðurstöður þeirrar rannsóknar. Í 8. kafla er umræða um rannsóknina og í 9. kafla eru lokaorð.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
Ingi Ingason - masterritgerð 18 sept 2012 - 01.pdf | 2.72 MB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna |