Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/13174
Í þessari ritgerð verður leitast við að greina áhrif fjárhættuspila á velferð á Íslandi þar sem hugtakið „velferð“ er skilgreint sem heildarábati þjóðfélags. Fyrst verður fjallað um umhverfi fjárhættuspila á Íslandi og framboð á fjárhættuspilaþjónustu. Í því samhengi verður gerð grein fyrir helstu lagareglum er lúta að fjárhættuspilum og þær útskýrðar. Því næst verða nokkur grundvallarhugtök skilgreind og vikið að hagfræðikenningum um fjárhættuspil með hliðsjón af aðstæðum fjárhættuspilamarkaðarins á Íslandi. Hin eiginlega greining ritgerðarinnar byggir á framangreindum upplýsingum og með henni verður leitast við að greina ástand hins íslenska fjárhættuspilamarkaðar. Fjallað verður um þau áhrif sem fjárhættuspilamarkaðurinn hefur á velferð. Meginmarkmið greiningarinnar er að kanna hvort að fjárhættuspilamarkaðurinn á Íslandi sé hagkvæmur með hliðsjón af hagfræðikenningum um fjárhættuspilamarkaði.
Niðurstaða greiningarinnar er í megindráttum sú að fjárhættuspilamarkaðurinn á Íslandi er ekki eins hagkvæmur og hann gæti verið. Með lagasetningu hefur löggjafinn viðhaldið einokunaraðstæðum á markaðnum en slíkt inngrip ber með sér þjóðhagslegan kostnað sem leiðir af sér neikvæð velferðaráhrif. Einokunaraðstæðurnar felast í því að aðgengi aðila inn á markaðinn er takmarkað og af því leiðir takmarkað framboð á fjárhættuspilaþjónustu. Tilhneiging stjórnvalda til þess að skattleggja fjárhættuspilaþjónustu stuðlar að óskilvirkum markaði vegna bjögunar á vali neytenda á markaðnum. Bjögun á vali neytenda leiðir af sér þjóðhagslegan kostnað fyrir þjóðfélagið og hefur neikvæð áhrif á velferð. Í ljósi þess að lagareglur sem snúa að fjárhættuspilum á Íslandi bera með sér þjóðhagslegan kostnað er niðurstaða greiningarinnar sú að afnám lagareglna sem snúa að fjárhættuspilum á Íslandi myndi stuðla að aukinni velferð á Íslandi.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
BS-Ritgerð(Loka).pdf | 643.05 kB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna |